• þri. 08. jan. 2008
  • Landslið

Aldrei fleiri landsleikir leiknir en árið 2007

Við erum öll í íslenska landsliðinu!
ahorfendur-10

Aldrei hafa landslið Íslands í knattspyrnu leikið fleiri landsleiki heldur en á nýliðnu árið, 2007.  Alls léku sjö landslið Íslands í karla- og kvennaflokki, 62 landsleiki árið 2007 en árið 2006 léku landsliðin samtals 47 landsleiki.

Áður höfðu flestir landsleikir farið fram árið 1994 þegar að leiknir voru 60 landsleikir.  Flesta landsleiki á síðasta ári lék U17 karlalandsliðið en liðið lék 13 landsleiki á árinu enda náði liðið þeim frábæra árangri að komast í úrslitakeppni EM sem leikin var í Belgíu.  Annað landslið, U19 kvenna, lék einnig í úrslitakeppni á árinu og var með næst flestu landsleikina, 10 talsins.  Þar á eftir komu A-landslið karla og kvenna en þau léku bæði 9 landsleiki á nýliðnu ári.

Heimaleikir karlaliðs Íslands í undankeppni fyrir EM 2008 voru einnig vel sóttir og er sú undankeppni sem hefur verið best sótt hingað til.  Að meðaltali mættu 7.833 áhorfendur á heimaleikina sex í keppninni en flestir mættu á leikinn gegn Danmörku, 10.007.  Áður hafði besta meðaltalið verið á undankeppni EM 2000 þegar að 6.571 áhorfandi mætti á heimaleikina.  Mest munaði um leikinn gegn Frakklandi í þeirri undankeppni en hann sóttu 12.004 áhorfendur.

Best sótti kvennalandsleikur Íslands frá upphafi var leikinn á árinu 2007 en 5.976 áhorfendur mættu á leik Íslands og Serbíu í undankeppni EM.  Var aðsóknarmetið bætt um ríflega helming en fyrra metið var þegar 2.974 áhorfendur mættu á leik Íslands og Englands árið 2002.