• sun. 30. des. 2007
  • Fréttir
  • Landslið

Luka Kostic hlýtur viðurkenningu Alþjóðahúss

Luka ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands
Althjodahus-verdlaun-2007-Luca

Luka Kostic, þjálfari U17 og U21 landsliða karla, hlaut í dag viðurkenningu Alþjóðahúss - "Vel að verki staðið" - fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á Íslandi.  Það var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem afhenti viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í Alþjóðahúsi í dag, 30. desember.

Þá hlutu Hjálmar Sveinsson, Ævar Kjartansson og Efling stéttarfélag viðurkenningu Alþjóðahúss af sama tilefni.  Viðurkenningar var nú veitt í fimmta sinn og þjónar þeim tilgangi að vekja athygli á jákvæðu starfi sem unnið er hér á landi í málefnum innflytjenda.

Veittar eru viðurkenningar í þremur flokkum og hlaut Luka viðurkenningu sem einstaklingur af erlendum uppruna sem lagt hefur sitt af mörkum til samfélagsins.

Nánar um afhendingu viðurkenninga á vef Alþjóðahúss.

Knattspyrnumaðurinn Luka Kostic var í fremstu röð, þótti sterkur varnarmaður, traustur og yfirvegaður, auk þess að vera heiðarlegur inni á vellinum jafnt sem utan hans.  Hann hóf að leika með króatíska félaginu Osijek í Júgóslavíu 1978, þá tvítugur að aldri.  Fyrir keppnistímabilið 1989 gekk hann til liðs við Þórsara á Akureyri og lék síðan með ÍA og Grindavík við mjög góðan orðstír.  Hann fagnaði tvívegis Íslandsmeistaratitli með Skagamönnum og einu sinni bikarmeistaratitli. 

Þjálfarinn Luka Kostic er útsjónarsamur og árangursmiðaður.  Hann gerir miklar kröfur til sjálf síns og leikmanna.  Hann hefur þjálfað lið Þórs, Grindavíkur, KR og Víkings í efstu deild karla.  Árið 2003 var hann ráðinn þjálfari U17 landsliðs karla og frá árinu 2005 hefur hann jafnframt þjálfað U21 landslið karla.  Luka er eini íslenski knattspyrnuþjálfarinn sem leitt hefur landslið í 8-liða úrslitakeppni Evrópu, en það gerði hann nú í vor þegar U17 landsliðið tók þátt í úrslitakeppni EM í Belgíu. 

Margir erlendir ríkisborgarar hafa komið við sögu í íslenskri knattspyrnu og auðgað hana með framlagi sínu.  Luka Kostic er einn þessara manna.