• sun. 30. des. 2007
  • Leyfiskerfi

Bréf framkvæmdastjóra KSÍ til leyfisumsækjenda

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Framkvæmdastjóri KSÍ hefur sent bréf til allra þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfi KSÍ og er efni þess bréfs birt hér að neðan.  Félögin eru minnt á lykildagsetningar og nokkur mikilvæg atriði í leyfisferlinu.

Bréf framkvæmdastjóra KSÍ:




Aðildarfélög KSÍ

Formenn/framkvæmdastjórar

Reykjavík, 28. desember 2007

 

Leyfiskerfið 2008

Ágætu félagar

Þann 15. janúar n.k. skulu félög er leika undir Leyfiskerfi KSÍ (lið í Landsbankadeild karla og 1. deild karla) skila gögnum vegna Leyfiskerfis til KSÍ.  Undirritaður telur rétt að benda félögum á að mikilvægi þess að gögnum sé skilað á réttum tíma og skilyrði séu uppfyllt.

Ef A-forsenda er ekki uppfyllt getur leyfisráð ekki veitt þátttökuleyfi, sem þýðir að viðkomandi félag getur ekki leikið í þeirri deild sem sótt er um leyfi fyrir, og þarf því að leika í næstu deild fyrir neðan. 

Mikilvægar A-forsendur eru m.a. að

 - ársreikningur verður að vera endurskoðaður og með fullri áritun endurskoðanda,

-  þjálfarar í öllum aldursflokkum verða að uppfylla kröfur um menntun, og

 - aðstaða fyrir áhorfendur þarf að vera skv. þeim kröfum sem gerðar eru (a.m.k. þarf að liggja fyrir áætlun um nauðsynlegar framkvæmdir og þeim lokið innan tímamarka).

 

Lykildagsetningar í leyfiskerfi KSÍ

Skil á gögnum, öðrum en fjárhagslegum, eigi síðar en 15. janúar.

Fjárhagslegum gögnum skilað eigi síðar en 20. febrúar.

Úr leyfishandbók KSÍ um skil gagna og lykildagsetningar:

2.2.3.2        Tímamörk ekki uppfyllt

Ef leyfisumsækjandi uppfyllir ekki sett tímamörk um framlagningu leyfisgagna skal hann sæta viðurlögum.  Við ákvörðun þeirra skal taka mið af alvarleika brotsins.  Eftirfarandi viðurlögum er hægt að beita:

1)   Viðvörun og sekt; við fyrsta brot skal beita dagsektum að upphæð kr 1.500 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 30.000.

2)   Áminning og sekt; við ítrekað brot skal skal beita dagsektum að upphæð kr 3.000 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 60.000.

3)   Stigatap; við alvarlegt og ítrekað brot er jafnframt heimilt að draga allt að 3 stig frá félaginu í deildarkeppninni.

     Ítrekunarkvöð fellur niður ef tímamörk hafa verið uppfyllt í 3 ár samfleytt.

 

Nokkur mikilvæg atriði varðandi fjárhagskafla leyfiskerfisins

1.  Ársreikningurinn þarf að vera endurskoðaður og með fullri áritun endurskoðanda.  Ekki er fullnægjandi að vera með skoðunarmenn.

2.  Sjáið til þess að öll gögn og allar staðfestingar séu í samræmi við það sem kveðið er á um í 10. kafla leyfishandbókarinnar.

3.  Munið að öll fjárhagsleg gögn þurfa að berast eigi síðar en 20. febrúar.  Þetta þýðir að þá þarf aðalfundur knattspyrnudeildar að hafa farið fram og endurskoðaðir ársreikningar staðfestir af aðalfundi/stjórn félagsins/knattspyrnudeildar.

4.  Ef aðalfundur aðalstjórnar (félagsins í heild) fer fram eftir 20. febrúar, þá þurfa menn að tryggja að knattspyrnudeildin hafi samt haldið aðalfund innan settra tímamarka og staðfest reikninga sína, endurskoðaða, með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar aðalstjórnar.

Stefán Franklín (stefan@sdf.is) hefur tekið við af Eggerti Steingrímssyni sem sérfræðingur leyfisstjórnar í fjárhagslegum forsendum.  Hann mun meta þau fjárhagslegu gögn sem félögin skila inn og kanna hvort þau standist þær kröfur sem gerðar eru.  Mikil áhersla er lögð á fjárhagslega kaflann í leyfishandbókinni og því skipta vönduð vinnubrögð gríðarlegu máli.

Ef frekari upplýsinga er óskað þá vinsamlegast hafið samband við Ómar Smárason leyfisstjóra KSÍ eða undirritaðan.

Bestu kveðjur,

Þórir Hákonarson

framkvæmdastjóri KSÍ