• mán. 10. des. 2007
  • Landslið

Leikið við Slóvakíu 26. mars

Byrjunarlið Íslands gegn Spánverjum í riðlakeppni EM 2008.
Island_Spann_A_Landslid_karla_0032

KSÍ og Knattspyrnusamband Slóvakíu hafa náð samkomulagi um að karlalandslið þjóðanna mætist vináttulandsleik í Slóvakíu 26. mars næstkomandi.  Þetta verður þá annar vináttulandsleikurinn í marsmánuði en einnig er fyrirhugaður leikur við Færeyjar í Egilshöll 16. mars.  Leikdagurinn 26. mars er alþjóðlegur landsleikjadagur.

Íslenska landsliðið mun einnig taka þátt á alþjóðlegu móti á Möltu dagana 2. - 6. febrúar.  Mótherjar Íslendinga þar verða Malta, Hvít-Rússar og Armenía.

Íslands og Slóvakía hafa tvisvar áður mæst í A-landsleik karla og hafa Slóvakar farið með sigur af hólmi í bæði skiptin.  Árið 1997 mættust þjóðirnar í vináttulandsleik í Trnava í Slóvakíu.  Heimamenn sigruðu 3-1 og það var Helgi Sigurðsson sem kom Íslendingum yfir á 26. mínútu í þeim leik.

Þjóðirnar mættust svo aftur ári síðar en sá leikur var liður í alþjóðlegu móti á Kýpur.  Slóvakar unnu þann leik einnig, 2-1 og var það Bjarki Gunnlaugsson sem minnkaði muninn á 77. mínútu í þeim leik.

Nánari upplýsingar um leikstað og leiktíma verða birtar þegar þær berast.