Leikið við Færeyjar 16. mars
Ísland og Færeyjar munu mætast í vináttulandsleik sunnudaginn 16. mars næstkomandi. Leikurinn mun fara fram í hinu nýja knattspyrnuhúsi Kórnum í Kópavogi. Leikdagurinn er ekki einn af alþjóðlegum leikdögum og má því búast við að uppistaðan í landsliðshópnum verði leikmenn er leika hér á landi.
Þetta verður fyrsti A-landsleikur karla sem fram fer innanhúss hér á landi og jafnframt fyrsti landsleikurinn sem fyrirhugaður er í Kórnum.
Íslendingar og Færeyingar hafa mæst 20 sinnum til þessa og hafa Íslendingar sigrað í 19 leikjum en einu sinni hafa þjóðirnar skilið jafnar en það var í Færeyjum árið 1984. Síðasti landsleikur þjóðanna var liður í undankeppni fyrir EM 2004 og sigruðu þá Íslendingar á útivelli með tveimur mörkum gegn einu. Eiður Smári Guðjohnsen og Pétur Marteinsson skoruðu mörk Íslendinga í þeim leik.