Danir sterkari á Parken
Danir lögðu Íslendinga í kvöld í lokaleik þjóðanna í undankeppni fyrir EM 2008. Lokatölur urðu 3-0 fyrir Dani eftir að staðan hafði verið 2-0 í hálfleik. Íslendingar enduðu því í sjötta sæti riðilsins með átta stig.
Íslendingar byrjuðu leikinn vel á Parken, vel studdir af á annað þúsund íslenskra áhorfenda. Heimamenn tóku svo vel við sér og tóku að stjórna leiknum. Íslenska liðið varð fyrir áfalli strax á 8. mínútu þegar að Kristján Örn Sigurðsson varð að fara af leikvelli vegna meiðsla.
Danir komust svo yfir á 35. mínútu með marki af stuttu færi og 9 mínútum síðar bættu þeir við öðru marki eftir snarpa skyndisókn. Stuttu síðar flautaði portúgalski dómarinn til hálfleiks og heimamenn með vænlega stöðu.
Síðari hálfleikur var að mestu eign heimamanna og íslenska liðið var að mestu í varnarhlutverki sem það leysti ágætlega. Þriðja mark Dana kom hinsvegar á 54. mínútu leiksins og þar við sat.
Sem fyrr reyndist þjóðarleikvangur Dana erfiður heim að sækja en íslenska liðið barðist vel allan leikinn. Eftir að heimamenn komust á blað var við ramman reip að draga og úrslitin sanngjörn. Undankeppni EM 2008 er því lokið en úrslitakeppnin fer fram í Sviss og Austurríki og hefst í júní.
Næstkomandi sunnudag verður hinsvegar dregið í undankeppni fyrir HM 2010 en úrslitakeppnin fer fram í Suður-Afríku.