• þri. 20. nóv. 2007
  • Landslið

Sætur sigur á Belgum

U21 landslið karla
ISL_AND_Jun2006

Íslenska U21 karlalandsliðið lagði Belga í dag í Brussel með tveimur mörkum gegn einu.  Leikurinn var í undankeppni EM U21 karla.  Þeir Birkir Bjarnason og Arnór Smárason skoruðu mörk Íslendinga.

Bæði mörk Íslendinga komu í fyrri hálfleik en hann lék íslenska liðið einstaklega vel. Birkir Bjarnason skoraði fyrsta markið á 16. mínútu og á 29. mínútu skoraði Arnór Smárason annað mark Íslendinga.  Belgar vöknuðu aðeins til lífsins undir lok fyrri hálfleiks og sóttu að marki Íslendinga en okkar menn gengu til hálfleiks með tveggja marka forystu.

Dæmið snerist heldur við í síðari hálfleik og þá voru það Belgar er voru sterkari aðilinn.  Íslenska liðið varðist af krafti en Belgar náðu að minnka muninn á 80. mínútu og efldust enn frekar við það.  Síðustu mínútur leiksins var stórsókn að marki Íslendinga og í tvígang, undir lok leiksins, bjargaði Haraldur Björnsson glæsiega í markinu.  Þegar dómarinn flautaði loks til leiksloka braust út mikill fögnuður hjá íslenska liðinu og glæsilegur sigur á Belgum staðreynd.

Þessi sigur fleytir íslenska liðinu upp í þriðja sæti riðilsins með 6 stig eftir fimm leiki.  Austurríkismenn eru á toppnum með 14 stig eftir sex leiki og Slóvakar eru í öðru sæti með 8 stig eftir fimm leiki.

Riðillinn