Landsliðið æfði tvisvar í dag
Íslenska landsliðið undirbýr sig nú af krafti fyrir landsleikinn gegn Danmörku á miðvikudag. Í dag æfði liðið tvisvar sinnum en seinni æfingin stóð yfir aðeins í um 40 mínútur en þá fór rafmagnið af æfingavellinum og þar með talið, flóðljósum vallarins. Ekki tókst að koma rafmagni á í tíma og var æfingunni því hætt. Ekki var aðeins um rafmagnsleysi á vellinum að ræða því rafmagnið fór af í öllu hverfinu og voru t.a.m. öll umferðarljós á svæðinu óvirk.
Ástandið á hópnum er gott og allir við hestaheilsu. Það þýðir þó ekki að menn njóti ekki aðhlynningar á milli æfinga og á meðfylgjandi mynd má sjá Brynjar Björn Gunnarsson í meðferð á milli æfinga í dag. Myndina tók sem fyrr hinn fjölhagi búningastjóri, Björn Ragnar Gunnarsson, á sinn forláta norræna síma.
Leikurinn á miðvikudaginn fer fram á Parken og hefst kl. 19:00 að íslenskum tíma. Leikurinn verður í beinni útsendingu á sjónvarpstöðinni Sýn.