• mán. 29. okt. 2007
  • Landslið

Ólafur Jóhannesson ráðinn þjálfari A-landsliðs karla

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Ólafur Jóhannesson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs karla og tekur hann við af Eyjólfi Sverrissyni.  Samningur Ólafs er til tveggja ára eða til 31. desember 2009.  Fyrsti leikur Ólafs verður 21. nóvember nk. þegar að Íslendingar sækja Dani heim á Parken.

Ólafur Jóhannesson er fæddur 30. júní 1957 og hefur gríðarlega mikla reynslu sem þjálfari og leikmaður í knattspyrnu.  Hann lék með FH, Haukum og Val en með síðastnefnda félaginu varð Ólafur Íslandsmeistari árið 1987.  Einnig lék hann með Einherja frá Vopnafirði en þar hófst einmitt þjálfaraferill hans fyrir réttum tuttugu og sex árum þegar hann þjálfaði liðið í 3. deildinni. 

Ólafur hefur þjálfað víða og aflað sér mikillar reynslu á þeim vettvangi.  Hann hefur lokið KSÍ A þjálfaragráðu (UEFA A) en það er hæsta gráða sem hægt er að taka hér á landi í knattspyrnuþjálfun. 

Hann hefur þjálfað hjá Þrótti Reykjavík, Haukum,ÍR, Selfossi og Skallagrími en síðastnefnda félaginu stýrði Ólafur upp í efstu deild árið 1996 og er það í eina skiptið til þessa er Skallagrímur hefur leikið í efstu deild. 

Haustið 2002 var Ólafur Jóhannesson ráðinn þjálfari hjá FH en það var í þriðja skiptið er hann þjálfaði hjá félaginu.  Árangur Ólafs með FH hefur verið einstaklega góður.  FH varð í öðru sæti Landsbankadeildarinnar árið 2003 en árið eftir varð FH Íslandsmeistari i fyrsta skiptið í sögu félagsins.  Hafnfirðingar endurtóku svo leikinn, undir stjórn Ólafs, 2005 og 2006.  Þá stjórnaði Ólafur FH til sigurs í VISA-bikarkeppninni í fyrsta skiptið árið 2007.

Ólafur lét af störfum hjá FH nú í haust og hefur nú verið ráðinn landsliðsþjálfari A-landsliðs karla.