U19 karla komst áfram í milliriðla
Íslenska U19 karlalandsliðið sigraði Rúmena í kvöld í síðasta leik sínum í undankeppni EM. Lokatölur urðu 2-0 Íslendingum í vil eftir að staðan í hálfeik hafði verið 1-0. Jósef Kristinn Jósefsson og Gylfi Þór Sigurðsson skoruðu mörkin í leiknum.
Íslendingar byrjuðu leikinn vel og eftir 13 mínútur hafði Jósef Kristinn Jósefsson komið þeim yfir með góðu marki. Þannig stóðu leikar er flautað var til hálfleiks og Gylfi Þór Sigurðsson, sem var fyrirliði liðsins í dag þar sem Aron Einar Gunnarsson var í leikbanni, tryggði Íslendingum öruggan sigur með marki þegar um stundarfjórðungur lifði eftir af leiknum. Þannig endaði leikurinn og Íslendingar tryggðu sér því annað sæti riðilsins og um leið, sæti í milliriðlum keppninnar. Englendingar, er lögðu Belga í dag með þremur mörkum gegn einu, urðu í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga.
Milliriðlarnir verða leiknir á tímabilinu 1. mars til 31. maí á næsta ári en úrslitakeppni átta liða fer fram í Tékklandi 14. - 28. júlí.