• þri. 09. okt. 2007
  • Fræðsla

Velheppnuð bikarúrslitaráðstefna KÞÍ

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands
kthi_bordi_2

Um helgina hélt Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands sína árlegu ráðstefnu í tengslum við bikarúrslitaleik karla.  Ráðstefnan var vel sótt af þjálfurum og þótti velheppnuð í alla staði.

Eftir setningu ráðstefnunnar var sýnt myndbrot til að heiðra minningu Ásgeirs Elíassonar.  Lögmaðurinn Brynjar Níelsson fór yfir samningagerð.
Sagði hann að það væru alltaf sömu vandamálin að koma upp.  Það er mikill munur lögum samkvæmt á launþegasamning og verktakasamning.  Atriði eins og veikindaréttur, orlofsréttur, slysatrygging og atvinnubótaréttur eru lögbundin í launþegasamning á meðan verktaki þarf að semja sérstaklega um þessi atriði.  Verktaki þarf auk þess að standa sjálfur skil á skatti, tryggingagjaldi og sjá um lífeyrissjóðsgreiðslur. 

Fræðslustjóri KSÍ Sigurður Ragnar Eyjólfsson fór yfir forsögu þess að hann hóf UEFA Pro Licence nám hjá enska knattspyrnusambandinu.  Ásamt því að fara ítarlega yfir skipulag, kennsluefni og nokkur verkefni námsins.  Í lok fyrirlestrarins fór Sigurður yfir hugsanlegar leiðir íslenskra þjálfara í framtíðinni til að taka UEFA Pro Licence.  Willum Þór Þórsson þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Vals í meistaraflokki karla ræddi um hlutverk þjálfarans, mikilvægi námsvilja og þess að vera alltaf að læra. 

Lúka Kostic fór yfir forvalsferlið fyrir U17 drengja og sagði frá liðinu sem komst í úrslitakeppni Evrópumóts U17 landsliða drengja sem fór fram í Belgíu í maí síðastliðnum.  Guðjón Þorvarðarson kynnti knattspyrnuakademíuna á Suðurlandi og starf sitt fyrir knattspyrnudeild Selfoss.  En á Selfossi hefur átt sér gríðarleg uppbygging á síðast misserum. Ólafur Kristjánsson þjálfari meistaraflokks Breiðabliks bar saman liðin í úrslitaleik Visa bikarsins ásamt því að Heimir Guðjóns og Ásmundur Arnarsson komu og tilkynntu byrjunarliðin og fóru yfir helstu áherslur í sókn og vörn fyrir leikinn.