• lau. 29. sep. 2007
  • Landslið

U19 kvenna tryggði sér sæti í milliriðlum

UEFA
uefa_merki

Ungmennalandslið Íslands léku í dag í riðlakeppni EM en eru þetta U19 kvenna og U17 karla sem eru í eldlínunni.  Stelpurnar unnu sigur á Grikkjum, 4-1 en strákarnir töpuðu gegn Ísrael, 0-3.

Stelpurnar í U19 hafa því tryggt sér sæti í milliriðlum en tvær efstu þjóðirnar komast upp úr riðlinum.  Jafntefli í síðasta leiknum gegn Portúgal dugir til sigurs í riðlinum en Portúgal tapaði í dag gegn Rúmeníu.

Sigur stelpnanna var aldrei í hættu og höfðu þær undirtökin allan leikinn.  Rúna Sif Stefánsdóttir opnaði markareikninginn með marki á 11. mínútu.  Það var svo afmælisbarn dagsins, Sara Björk Gunnarsdóttir úr Haukum, er skoraði næstu tvö mörk á 15. og 26. mínútu.  Staðan því 3-0 þegar gengið var til búningsherbergja. 

Íslenska liðið hafði undirtökin í seinni hálfleik einnig en gekk illa að finna netmöskvana.  Grikkir minnkuðu muninn á 73. mínútu með marki úr vítaspyrnu en Elínborg Ingavarsdóttir skoraði síðasta mark leiksins á 74. mínútu og þar við sat.

Strákarnir í U17 biðu lægri hlut gegn Ísrael með þremur mörkum gegn engu og komu tvö marka Ísraela úr vítaspyrnum.  Þetta er annar leikur liðsins en strákarnir töpuðu fyrri leiknum gegn Serbum með einu marki gegn engu.

Bæði liðin spila síðustu leiki sína á þriðjudaginn en þá mæta stelpurnar Portúgal en strákarnir leika gegn Litháen.