• fim. 27. sep. 2007
  • Landslið

Góður sigur í fyrsta leik hjá U19 kvenna

UEFA
uefa_merki

Íslenska U19 kvennalandsliðið byrjaði riðlakeppni EM 2008 með látum en fyrsti leikur liðsins var í dag.  Rúmenar voru þá lagðir að velli með fjórum mörkum gegn engu en staðan í hálfleik var 2-0.  Leikið verður gegn Grikkjum á laugardaginn kl. 15:00.  Riðillinn er leikinn í Portúgal.

Íslenska liðið byrjaði betur og hafði yfirhöndina í leiknum.  Ísinn var þó ekki brotinn fyrr en á 35. mínútu þegar að Jóna Kristín Hauksdóttir skoraði fyrsta markið eftir mistök hjá markverði Rúmena.  Átta mínútum síðar var svo Sara Björk Gunnarsdóttir á ferðinni þegar hún skallað knöttinn í netið eftir sendingu frá Fanndísi Friðriksdóttur.  Íslendingar leiddu því með tveimur mörkum þegar gengið var til búningsherbergja.

Seinni hálfleikur, líkt og sá fyrri, var í eigu íslenska liðsins.  Mörkin létu þau aðeins á sér standa en á 77. mínútu skoraði Fanndís Friðriksdóttir þriðja mark Íslands.  Það var svo markahæsti leikmaður úrslitakeppni EM U19 á Íslandi, Fanndís Friðriksdóttir, sem skoraði annað mark sitt og fjórða mark Íslands á 82. mínútu.  Þar við sat og lokatölur því 4-0 og góð byrjun hjá íslenska liðinu í riðlakeppninni.

Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Grikklandi á laugardaginn og hefst sá leikur kl. 15:00 íslenskum tíma.  Grikkir töpuðu í dag, í hinum leik riðilsins, fyrir heimastúlkum í Portúgal með fjórum mörkum gegn engu.

Leikskýrsla

Riðillinn