Öruggur sigur á Slóvenum hjá U17 kvenna
Stelpurnar í U17 landsliðinu sigruðu sinn annan leik í riðlakeppni fyrir EM en riðillinn er leikinn í Slóveníu. Voru heimastúlkur lagðar að velli að þessu sinni með fimm mörkum gegn engu og gerði Dagný Brynjarsdóttir þrennu í leiknum.
Íslenska liðið réð ferðinni í leiknum og komst yfir á 20. mínútu með marki frá Andreu Ýr Gústavsdóttur. Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik og því gengið til búningsherbergja með eins marks forystu.
Seinni hálfleikur var svipaður þeim fyrri og á 59. mínútu var komið að þætti Dagnýjar Brynjarsdóttur í leiknum en þá skoraði hún annað mark Íslendinga. Hún bætti svo við öðru marki sínu á 73. mínútu og var aftur á ferðinni aðeins mínútu síðar. Það var svo Sara Atladóttir sem að átti lokaorðið á ótrúlegum þriggja mínútna kafla þegar hún skoraði fimmta og síðasta markið á 75. mínútu.
Örggur sigur því staðreynd og eiga íslensku stelpurnar ágætan möguleika á því að komast í milliriðla. Ísland leikur gegn Úkraínu á laugardag og nægir jafntefli til þess að tryggja sér sigur í riðlinum og öruggt sæti í milliriðli. Þær sex þjóðir sem hafa bestan árangur í öðru sæti komast einnig áfram í millirðla er riðlarnir eru alls tíu. Úkraína er í öðru sæti með fjögur stig en þær unnu Letta í dag með tveimur mörkum gegn einu.