• mán. 17. sep. 2007
  • Landslið

Stórsigur hjá U17 kvenna gegn Lettlandi

Byrjunarlið U17 kvenna gegn Lettlandi í lánsbúningum
U17_kvenna_Lettland_sept_2007

Stelpurnar í U17 kvenna byrjuðu riðlakeppni Evrópumótsins af miklum krafti og lögðu Letta örugglega í fyrsta leik sínum.  Lokatölur urðu 7-1 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 5-0.  Berglind Björg Þorvaldsdóttir gerði fimm mörk í leiknum.

Ferðlaga stelpnanna til Slóveníu gekk ekki þrautalaust fyrir sig og vegna seinkunar á flugi komu stelpurnar ekki á áfangastað fyrr en kl. 4 í morgun.  Ekki tók betra við þar sem að töskur hópsins skiluðu sér alls ekki á réttan stað.  Stelpurnar slepptu því æfingu í morgun en mættu einbeittar í leikinn, reyndar í lánsbúningum.  Sem betur fer var forsjálnin með í för og voru því allir leikmenn með skó og legghlífar í handfarangri.

Íslenska liðið stjórnaði leiknum frá upphafi til enda og strax á þriðju mínútu kom fyrsta markið og þar var Berglind Björg Þorvaldsdóttir á ferðinni.  Sex mínútum síðar bætti Sigrún Inga Ólafsdóttir marki við og á 18. mínútu skoraði Berglind sitt annað mark í leiknum.  Berglind bætti svo þriðja marki sínu við á 31. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði, fyrirliðinn, Dagný Brynjarsdóttir fimmta mark Íslendinga.  Frábær fyrri hálfleikur að baki og í hálfleik fréttist að langflestar töskurnar væru komnar á áfangastað.

Seinni hálfleikur var öllu rólegri en íslenska liðið með yfirhöndina.  Mörkin létu á sér standa en það var svo títtnefnd Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem að bætti við tveimur mörkum á 71. og 79. mínútu leiksins.  Berglind gerði því fimm mörk í leiknum sem er ótrúlegur árangur.  Þessi Eyjastelpa, sem leikur með Breiðablik, á ekki langt að sækja markheppnina en bróðir hennar er landsliðsmaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson.  Lettar skoruðu sitt eina mark í blálokin úr vítaspyrnu en það skyggði ekki á góðan sigur íslensku stelpnanna.

Stelpurnar leiks svo gegn gestgjöfunum frá Slóveníu á miðvikudaginn og hefst leikurinn kl. 14:30 en Slóvenía og Úkraína gerðu jafntefli í dag, 2-2.

Leikskýrsla 

Riðillinn

Mynd: Byrjunarlið Íslands gegn Lettum í lánsbúningunum