• lau. 08. sep. 2007
  • Landslið

Jafntefli við Spánverja í hörkuleik

Úr leik Íslands og Trinidad & Tobago
Alid-emil-01-togt

Íslendingar og Spánverjar gerðu jafntefli í hörkuleik á Laugardalsvelli í kvöld en leikurinn var í riðlakeppni EM.  Íslendingar komust yfir í fyrri hálfleik með marki Emils Hallfreðssonar og þannig var staðan þangað til 86 mínútur voru liðnar af leiknum en þá jafnaði Andres Iniesta leikinn.

Íslendingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru sterkari aðilinn í byrjun leiksins og var Gunnar Heiðar Þorvaldsson hársbreidd frá því að koma Íslendingum yfir eftir aukaspyrnu.  Á 14. mínútu leiksins fékk Xabi Alonso rauða spjaldið eftir viðskipti við Arnar Þór Viðarsson.  Spánverjar því einum færri og mínútu síðar fékk Gunnar Heiðar dauðafæri eftir frábæra sókn en boltinn fór rétt framhjá stönginni. 

Á 40. mínútu áttu Íslendingar góða sókn sem lauk með því að Jóhannes Karl Guðjónsson átti frábæra sendingu fyrir markið sem að Emil Hallfreðsson skallaði í netið með því að kasta sér fram.  Glæsilegt mark og algerlega óverjandi fyrir Iker Casillas markmann Spánverja.  Þannig var staðan er Þjóðverjinn Wolfgang Stark flautaði til hálfleiks og 9.783 áhorfendur klöppuðu Íslendingum lof í lófa fyrir frábæra frammistöðu í hálfleiknum.

Baráttan var áfram mikil í síðari hálfleik og Spánverjar freistuðu þess að jafna og lögðu meira í sóknina.  Gekk þeim hinsvegar illa að skapa sér marktækifæri og áttu erfiðleikum að koma skotum á markið fyrir þéttum varnarmúr Íslendinga.  Á sama tíma beittu Íslendingar skyndisóknum og var Grétar Rafn Steinsson tvisvar sinnum nálægt því að skora og ekki síður Gunnar Heiðar sem komst einn innfyrir á  64. mínútu en Casillas sá við honum.

Pressa Spánverja þyngdist stöðugt en færin létu á sér standa.  Það var hinsvegar á 86. mínútu að þeir náðu góðri sókn sem lauk með því að Iniesta komst á auðan sjó inn í vítateig og renndi boltanum í markið.  Dómarinn bætti við þremur mínútum og í lok uppbótartímans kom síðasta færi leiksins þegar tveir íslenskir leikmenn voru hársbreidd frá því að skalla aukaspyrnu Emils í markið.  Skömmu síðar flautaði dómarinn til leiksloka og áhorfendur, sem létu vel í sér heyra allan leikinn, klöppuðu íslensku strákunum lof í lófa.

Leikurinn gefur góð fyrirheit fyrir næsta leik liðsins sem verður miðvikudaginn 12. september kl. 18:05.  Þá komar Norður Írar í heimsókn en þeir eru í harðri baráttu um annað sæti riðilsins.

Önnur úrslit kvöldsins í riðli Íslendinga:

  • Lettland - Norður Írland 1-0
  • Svíþjóð - Danmörk  0-0

Riðillinn

Mynd: Emil Hallfreðsson skoraði mark Íslendinga í leiknum.