• sun. 26. ágú. 2007
  • Landslið

Tap í Slóveníu hjá stelpunum

Ásthildur Helgadóttir, Katrín Jónsdóttir og Dóra Stefánsdóttir í baráttunni gegn Frökkum
Island_Frakkland_kv_16juni_2007_AstKatDoraStef

Ísland tapaði á útivelli í dag fyrir Slóveníu í riðlakeppni fyrir EM 2009.  Lokatölur urðu 2-1 fyrir heimastúlkum og komu öll mörkin í fyrri hálfleik.  Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði mark Íslands á 4. mínútu.

Fyrsta tap Íslands í riðlakeppni fyrir EM 2009 því staðreynd en fram að þessu hafði íslenska liðið unnið alla sína leiki til þessa.

Leikurinn byrjaði þó ákaflega vel því strax á 4. mínútu skoraði Margrét Lára Viðarsdóttir gott mark eftir að hafa komist ein inn fyrir vörn Slóvena.  En strax tveimur mínútum síðar jöfnuðu heimastúlkur með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu.  Íslenska liðið réð lögum og lofum í leiknum en á 22. mínútu komust Slóvenar yfir með marki úr vítaspyrnu.  Þrátt fyrir góð marktækifæri tókst stelpunum ekki að jafna metin og staðan því 2-1 í hálfleik.

Yfirburðir íslenska liðsins voru þeir sömu í síðari hálfleiknum en okkar leikmönnum var fyrirmunað að skora í leiknum þrátt fyrir fjölmörg dauðafæri.  Slóvenska liðið náði að halda markinu hreinu og fögnuðu gríðarlega þegar að dómari leiksins flautaði til leiksloka.  Skotnýting þeirra var frábær, áttu 2 skot að marki og skoruðu 2 mörk.

Þetta var síðasti leikur íslenska liðsins í riðlakeppninni á þessu ári en næsti leikur liðsins er á útivelli gegn Serbíu, 28. maí á næsta ári.

Riðillinn