Kanadíski hópurinn tilkynntur
Landsliðsþjálfari Kanada, Dale Mitchell, hefur tilkynnt 17 manna landsliðshóp sinn er mætir Íslendingum í vináttulandsleik á Laugardalsvelli, miðvikudaginn 22. ágúst nk. Hópurinn samanstendur af leikmönnum sem leika víðsvegar í Evrópu.
Kanadamenn hafa stigið hratt upp styrkleikalista FIFA og eru nú í 52. sæti. Þeir komust í undanúrslit í Norður Ameríkukeppninni (Gold Cup) sem fram fór í júní. Þar töpuðu þeir fyrir Bandaríkjamönnum sem unnu svo keppnina sjálfa. Besti leikmaður á Gold Cup var valinn Kanadamaðurinn Julian De Guzman en hann leikur með Deportivo La Coruna á Spáni. Annar leikmaður Kanada var valinn í úrvalslið keppninnar, Richard Hastings, en hann leikur með Inverness í skosku úrvalsdeildinni.
Landsliðhópur Kanada fyrir leikinn gegn Íslandi samanstendur einungis af leikmönnum er leika í Evrópu. Þjálfarinn Dale Mitchell, sem er að stýra A-landsliðinu í sínum fyrsta landsleik, ákvað að velja ekki leikmenn er leika utan Evrópu í þetta verkefni.
Kunna leikmenn má finna í landsliðshópnum s.s. Paul Stalteri Tottenham, Tomasz Radzinski sem lék síðast með Fulham og markvörð Rosenborg, Lars Hirschfeld. Þá eru í hópnum Iain Hume Leicester sem skorað hefur mikið í næst efstu deild í Englandi og Atiba Hutchinson FC Köbenhavn en hann skoraði m.a. mark Köbenhavn gegn Benfica í Meistaradeild UEFA í gær.
Miðasala á leikinn er hafin og er hægt að kaupa miða hér.
Mynd: Paul Stalteri, leikmaður Tottenham og Kanada.