• þri. 31. júl. 2007
  • Landslið

Glæsilegri úrslitakeppni U19 kvenna lokið

Merki_WU19_Iceland_2007
Merki_WU19_Iceland_2007

Eins og kunnugt er lauk úrslitakeppni EM U19 landsliða kvenna með úrslitaleik á Laugardalsvelli síðastliðinn sunnudag.  Mótið var hið glæsilegasta í alla staði og eiga hinir fjölmörgu sjálfboðaliðar sem störfuðu við mótið þakkir skildar.

Mótið hófst með fyrstu leikjum í riðlakeppninni þann 18. júlí og var formlegur vígsluleikur mótsins viðureign Íslands og Noregs á Laugardalsvelli.  Úrslitaleikurinn fór síðan fram á sama velli sunnudaginn 29. júlí og þar mættust Þjóðverjar og Englendingar.

Tveir leikir fóru fram á Kópavogsvelli, Grindavíkurvelli, Akranesvelli, Fylkisvelli, Víkingsvelli og KR-velli, en þrír leikir á Laugardalsvelli.

Skipulagning og framkvæmd móts sem þessa krefst gríðarlegrar vinnu.  Við mótið starfaði ekki aðeins starfsfólk KSÍ, undir leiðsögn mótsstjórans Klöru Bjartmarz, auk stjórnar- og nefndarmanna KSÍ, heldur einnig fjölmennt starfslið frá UEFA og fjölmargir sjálfboðaliðar úr knattspyrnuhreyfingunni hér á landi.

Framkvæmd leikja á völlunum tókst með miklum ágætum og hrósuðu fulltrúar UEFA og þjóðanna sem hér kepptu Íslandi í hástert vegna gæða leikvanganna, keppnisvallanna sjálfra og öflugs starfsfólks og sjálfboðaliða á völlunum.

Þessi glæsilega úrslitakeppni er til marks um þann kraft og þá samheldni sem er í knattspyrnuhreyfingunni hér á landi - þökk sé grasrótinni og sjálfboðaliðunum í aðildarfélögum KSÍ.

Fréttir af mótinu á ksi.is

Umfjöllun um mótið á uefa.com