Englendingar mæta Þjóðverjum
Það verða tvær rótgrónar knattspyrnuþjóðir, Þýskaland og England, er mætast í úrslitaleik EM U19 á sunnudaginn. Þetta varð ljóst eftir að Englendingar unnu Norðmenn á KR-vellinum í gærkvöldi með þremur mörkum gegn engu.
Jafnræði var með liðunum í upphafi og bæði lið þreifuðu fyrir sér enda mikið í húfi og taugaspennan allmikil. Norðmenn fengu ágætis færi snemma leiks en á 23. mínútu náðu Englendingar að brjóta ísinn. Þar var að verki Ellen White en hún skoraði eftir varnarmistök Norðmanna. Enska liðinu hefur gengið vel að verja forskot í keppninni hingað til og lagðist það til baka en átti hættulega skyndisóknir.
Eins marks forysta var Englendinga þegar gengið var til hálfleiks en norsku stelpurnar mættu ákveðnar til leiks í síðari hálfleik og sóttu töluvert. Erfiðlega gekk hinsvegar hjá þeim að skapa marktækifæri enda enska vörnin óárennileg með, fyrirliðann, Fern Whelan í feiknaformi.
Ellen White var svo aftur á ferðinni fyrir England á 60. mínútu þegar hún fór í gegnum norsku vörnina og lagði boltann auðveldlega í netið. Norsku stelpurnar gáfust ekki upp en það var virkilega á brattann að sækja þegar þarna var komið við sögu. Hamarinn varð svo ókleifur á 78. mínútu þegar Elizabeth Edwards skoraði með með þrumuskoti af rúmlega 25. metra færi.
Ensku stelpurnar fögnuðu ákaft þegar flautað var til leiksloka en stöllur þeirra sátu hnípnar eftir á vellinum. Norska liðið getur engu að síður vel við unað enda hefur liðið tryggt sér keppnisrétt á HM í Chile sem byrjar um áramótin en fjórar efstu þjóðir keppninnar tryggðu sér þar sæti.
Það verða því tvær miklar knattspyrnuþjóðir sem að takast á í úrslitaleik keppninnar á sunnudaginn kl. 16:00 á Laugardalsvelli. Þýskaland-England í úrslitaleik EM er eitthvað sem enginn knattspyrnuáhugamaður á að láta fram hjá sér fara.