Þjóðverjar áfram eftir framlengdan leik
Þjóðverjar tryggðu sér sæti í úrslitaleik EM U19 landsliða kvenna þegar þeir báru sigurorð af Frökkum með fjórum mörkum gegn tveimur eftir framlengdan leik. Úrslitaleikurinn fer fram á Laugardalsvelli á sunnudag kl. 16:00.
Fyrri hálfleikur var nokkuð rólegur og greinilegt að bæði lið fóru varlega í sóknaraðgerðum sínum, áherslan virtist vera að gefa ekki á sér færi.
Aðeins eitt mark leit dagsins ljós í fyrri hálfleik og var þar að verki Stephanie Goddard, sem lék í framlínu þýska liðsins ásamt Isabel Kerschowski. Nadine Kessler, fyrirliði Þjóðverja, vann boltann af frönskum varnarmanni og kom honum inn fyrir vörnina á Goddard, sem gerði engin mistök.
Síðari hálfleikur var mjög fjörugur og mikið um færi. Nicole Banecki gerði varnarmönnum Frakka lífið leitt hvað eftir annað og hún jók forystu Þjóðverja með marki á 66. mínútu eftir glæsilegt einstaklingsframtak.
Það stóð ekki á svari frá Frökkum að þessu sinni og Mary-Laure Delie minnkaði muninn aðeins mínútu síðar, tók vel á móti knettinum á vítateig og lagði hann glæsilega í markið framhjá varnarlausum markverði Þjóðverja.
Franska liðið sótti í kjölfarið stíft að þýska markinu og uppskar jöfnunarmark á 76. mínútu. Aukaspyrnu utan af hægri kanti var skilað vel inn í vítateig og þar var Chloé Mazaloubeaud mætt og skoraði með þrumuskalla.
Það sem eftir lifði venjulegs leiktíma skiptust liðin á að sækja og fengu bæði tækifæri til að gera út um leikinn, en tókst ekki.
Jafnræði var með liðunum í framlengingunni, en Þjóðverjar voru sterkari á lokasprettinum og tryggðu sér sigur með mörkum á 115. mínútu og 120. mínútu. Fyrra markið skoraði Susanne Hartel, sem lék á markvörðinn og skoraði auðveldlega. Isabel kerschowski gulltryggði svo sigurinn þegar hún komst inn í sendingu og á auðan sjó fyrir opnu marki. Eftirleikurinn var auðveldur og sæti í úrslitaleiknum tryggt.
Hin franska Delie skoraði þriðja mark sitt í keppninni og hefur þá skorað jafn mörg mörk og Fanndís Friðriksdóttir, sem skoraði þrjú mörk fyrir Ísland. Þær eru markahæstar í mótinu þegar þetta er ritað, en enn eru tveir leikir eftir - síðari undanúrslitaleikurinn, á KR-velli í dag, fimmtudag, þar sem Noregur og England mætast, og svo sjálfur úrslitaleikurinn á sunnudag kl. 16:00 á Laugardalsvelli.
Fólk er hvatt til að fjölmenna á leikinn og sjá efnilegust knattspyrnukonur í Evrópu leika listir sínar. Frítt er á leikinn í boði Orkuveitu Reykjavíkur.