• þri. 24. júl. 2007
  • Landslið

Fanndís markahæst eftir riðlakeppnina

Fanndís Friðriksdóttir
Fanndis_Fridriksdottir

Fanndís Friðriksdóttir, framherji í U19 landsliði Íslands, er markahæst allra leikmanna eftir riðlakeppnina í úrslitakeppni EM U19 kvenna.  Fanndís skoraði öll þrjú mörk íslenska liðsins í keppninni.  Næstu leikmenn hafa skorað tvö mörk.

Fyrsta mark Fanndísar kom gegn Dönum á Kópavogsvelli og hún fylgdi því eftir með því að skora tvisvar gegn núverandi Evrópumeisturum Þjóðverja á Grindavíkurvelli.  Hún mun þó ekki ná að bæta við mörkum í keppninni þar sem íslenska liðið er úr leik.

Fjórir leikmenn hafa skorað tvö mörk hingað til og allir þessir leikmenn eru í liðum sem leika í undanúrslitum, þannig að möguleikarnir á að bæta við eru fyrir hendi.

Tveir Norðmenn hafa skorað tvö mörk, þær Maren Mjelde, sem skoraði bæði mörk sín gegn Íslendingum á Laugardalsvellinum í fyrstu umferð, og Ingvild Isaksen, sem skoraði gegn Íslandi og gegn Danmörku á Akranesvelli.

Mary Laure Delie, sem leikur í sóknarlínu franksa liðsins, hefur skorað tvö mörk.  Fyrra markið skoraði hún í tapleik gegn Englendingum á Akranesvelli og það síðara í öruggum sigri á Pólverjum á Víkingsvelli í lokaumferð riðlakeppninnar.

Fyrirliði þýska liðsins, Nadine Kessler, hefur einnig skorað tvö mörk.  Fyrra markið gerði hún í tveggja marka sigri á Norðmönnum og það síðara gegn Íslendingum í Grindavík.

Nánar um mótið á uefa.com

Fréttir frá mótinu á ksi.is