• mán. 23. júl. 2007
  • Landslið

Þjóðverjar unnu sigur í Grindavík

Íslenski U19 hópurinn er tekur þátt í úrslitakeppni EM U19 kvenna á Íslandi.
Islensku_U19_hopurinn

Þjóðverja lögðu Íslendinga með fjórum mörkum gegn tveimur í lokaumferð riðlakeppni U19 kvenna, en liðin mættust í Grindavík í dag.  Leikurinn var hin fínasta skemmtun fyrir áhorfendur á Grindavíkurvelli.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru með besta móti, sólskin og hlýtt veður, þannig að vel fór um hins fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína á Grindavíkurvöll.

Þýska liðið byrjaði leikinn betur og hafði ná tveggja marka forystu eftir eftir rúmlega 20 mínútna leik.  Fyrsta markið kom á 8. mínútu og var þar að verki Imke Wübbenhorst, sem skoraði með fallegum skalla eftir aukaspyrnu utan af kanti.  Fyrirliðinn Nadine Kessler skoraði síðan annað markið af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Þjóðverjar voru meira með knöttinn og létu hann ganga vel á milli sín, en íslenska liðið barðist vel.  Þessi barátta skilaði sér í marki á 60. mínútu.  Þar var að verki Fanndís Friðriksdóttir, sem hirti boltann af markverði þýska liðsins og renndi honum í netið.

Á 73. mínútu komst Fanndís inn í sendingu aftur til markvarðarins og var mjög nálægt því að jafna metin, en markvörðurinn varði með fætinum og bjargaði í horn.  Upp úr hornspyrnunni fengu Þjóðverjar skyndisókn og uppskáru sitt þriðja mark, að þessu sinni frá Nathalie Bock. 

Okkar stúlkur voru þó hvergi nærri hættar og Fanndís minnkaði aftur muninn þegar um 10 mínútur voru til leiksloka.  Hennar annað mark í leiknum og þriðja í keppninni.  Linda Rós Þorláksdóttir stakk boltanum inn fyrir vörnina og Fanndís lagði boltann snyrtilega í netið við stöngina fjær.

Eftir þetta sótti íslenska liðið og reyndi að jafna metin, en það voru Þjóðverjar sem náðu að bæta við marki í blálokin, og að þessu sinni var það Isabel Kerschowski, sem komst ein í gegn og kláraði færið mjög vel.

Ísland lék vel í þessum leik, sem var stórskemmtilegur á að horfa.  Það er ljóst að við Íslendingar eigum fullt af efnilegum leikmönnum sem eiga án vafa eftir að láta mikið að sér kveða í framtíðinni og gaman verður að fylgjast með. 

Um mótið á uefa.com

Fréttir af mótinu á ksi.is