• mán. 23. júl. 2007
  • Landslið

Norðmenn tryggðu sér sigur í lokin

Merki_WU19_Iceland_2007
Merki_WU19_Iceland_2007

Í dag lauk riðlakeppni úrslitakeppni EM U19 kvenna og fóru fram fjórir hörkuleikir.  Þýskaland, Noregur, England og Frakkland halda áfram í undanúrslitin sem fara fram á fimmtudaginn.  Þýskaland og Frakkland mætast annarsvegar og England og Noregur hinsvegar.

Á Akranesi mættust í hreinum úrslitaleik um annað sæti A-riðils, Noregur og Danmörk.  Mikil spenna var í leikmönnum liðanna og var markalaust þegar gengið var til hálfleiks.  Það var ekki fyrr en að 15 mínútur lifðu af leiknum að fyrsta mark leiksins kom og voru það norsku stelpurnar sem þar voru að verki.  Aðeins fimm mínútum síðar jöfnuðu Danir og leikurinn því í járnum.  Þegar þrjár mínútur voru svo komnar fram yfir venjulega leiktíma, skoruðu Norðmenn sigurmarkið og gulltryggðu sér undanúrslitasætið.

Það verða Englendingar sem að mæta Noregi í undanúrslitunum en England sigraði Spán á KR-vellinum með einu marki gegn engu.  Enska liðinu nægði jafntefli til þess að tryggja sig áfram og tók ekki mikla áhættu í sínum leik.  Þær skoruðu svo fallegt mark beint úr aukaspyrnu á 20. mínútu og Spánverjum tókst ekki að brjóta niður sterka vörn Englendinga sem eftir lifði leiks.  Englendingar fögnðu ákaft þegar að flautað var til leiksloka en spánska liðið sat hnípið eftir.

Það verða svo þjóðirnar er léku til úrslita í EM U19 2006, Þýskaland og Frakkland, er mætast í hinum úrslitaleiknum.  Þjóðverjar höfðu fyrir síðustu umferðina tryggt sig áfram í undanúrslitin og lögðu Íslendinga 4-2 í lokaumferðinni.  Frakkar lögðu hinsvegar Pólverja á Víkingsvelli með fjórum mörkum gegn engu.  Það var góður fyrri hálfleikur er lagði grunninn að þessum góða sigri Frakka en þær leiddu í hálfleik með þremur mörkum gegn engu.  Bæði liðin áttu möguleika á að tryggja sig áfram fyrir leikinn en franska liðið var ekki á þeim buxunum að gefa neitt eftir.  Þær bættu einu marki við í seinni hálfleik og unnu öruggan sigur.

Undanúrslitaleikirnir fara fram fimmtudaginn, 26. júlí og fer annar leikurinn fram á Laugardalsvelli kl. 16:00 en hinn á KR-velli kl. 19:00.

Keppnin á uefa.com

Fréttir af keppninni