• fös. 20. júl. 2007
  • Landslið

Þjóðverjar öruggir í undanúrslit

Merki_WU19_Iceland_2007
Merki_WU19_Iceland_2007

Þjóðverjar tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum EM U19 kvenna með því að leggja Norðmenn á Fylkisvelli í dag með tveimur mörkum gegn engu.  Baráttunni um hin sætin þrjú lýkur á mánudag.

Eftir úrslit dagsins er ljóst að Þjóðverjar, sem hafa titil að verja, verða að teljast sigurstranglegir í mótinu.  Norðmönnum tókst ekki að halda í við kraftmikið þýskt lið sem hafði sigur með mörkum frá Stephanie Goddard og Nadine Kessler, eitt í hvorum hálfleik.

Á Akranesi lögðu Englendingar Frakka með þremur mörkum gegn einu.  Sophie Bradley skoraði fyrsta markið um miðjan fyrri hálfleik og Natasha Dowie bætti við öðru marki eftir klukkutíma leik, en aðeins nokkrum mínútum síðar minnkaði Mary-Laure Delie muninn fyrir Frakka.  Frakkar pressuðu stíft að marki enska liðsins í leit að jöfnunarmarki, en Ellen White gulltryggði hins vegar enskan sigur með marki í blálokin. 

Spánverjar höfðu tögl og hagldir allan tímann gegn Pólverjum í Grindavík.  Spænska liðið sótti án afláts í fyrri hálfleik, en tókst ekki að skora þrátt fyrir fjölmörg færi og markvörður pólska liðsins, Anna Bocian, varði m.a. vítaspyrnu á glæsilegan hátt.  Stórsókn Spánverja hélt áfram í seinni hálfleik og þrátt fyrir frábæra frammistöðu Bocian í pólska markinu tókst Maríu Paz og Mörtu Torrejón að koma knettinum framhjá henni og í netið.  Spænskur 2-0 sigur var staðreynd.

Í lokaumferð riðlakeppninnar á mánudag mætast Danir og Norðmenn í úrslitaleik um hvort liðið fylgir Þjóðverjum í undanúrslit.  Í B-riðli eiga öll liðin enn möguleika á að komast áfram.