Naumt tap gegn Dönum í hörkuleik
Íslenska U19 kvennalandsliðið beið lægri hlut gegn Danmörku í kvöld á Kópavogsvelli með tveimur mörkum gegn einu. Með þessum úrslitum á íslenska liðið ekki möguleika að komast áfram í undanúrslit keppninnar.
Danska liðið fékk óskabyrjun þegar þær komust yfir strax á annarri mínútu. Markið setti íslenska liðið útaf laginu en þær tóku fljótlega við sér og höfðu í fullu tré við dönsku stelpurnar. Var jafnræði með liðunum sem eftir lifði hálfleiksins en á lokasekúndunum varð íslenska liðið fyrir tvöföldu áfalli. Guðrún Erla Hilmarsdóttir, fyrirliði Íslands, lenti þá í samstuði við danskan leikmann inn í vítateig Íslendinga. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu á íslenska liðið og Guðrún þurfti að yfirgefa völlinn með ökklameiðsli. Danirnir skoruðu úr vítaspyrnunni og rétt á eftir flautaði ungverski dómarinn til hálfleiks.
Íslensku stelpurnar komu ákaflega ákveðnar til leiks í síðari hálfleik og sóttu töluvert að danska liðinu. Það bar ávöxt fljótlega því á 52. mínútu skoraði Fanndís Friðriksdóttir laglegt mark með skoti frá vítateigslínu. Sama baráttan hélt áfram en á 62. mínútu fékk Rakel Hönnudóttir að líta rauða spjaldið við litla hrifningu íslenska liðsins. Stelpurnar gáfu samt Dönum ekkert eftir og börðust eins og ljón í frábæru fótboltaveðri í Kópavoginum. Þrátt fyrir ágætis tilraunir tókst þeim ekki að jafna og sigur Dana staðreynd.
Þessi úrslit gera það að Ísland á ekki möguleika á því að komast í undanúrslitin. Þýskaland, sem sigraði Norðmenn 2-0 fyrr í dag, hefur tryggt sér sæti í undanúrslitum en Danmörk og Noregur leika á mánudaginn á Akranesvelli og berjast þar um annað sæti riðilsins. Íslendingar og Þjóðverjar eigast hinsvegar við á Grindavíkurvelli og byrja báðir þessir leikir kl. 16:00 á mánudaginn.
Mynd: Fanndís Friðriksdóttir skoraði mark Íslands