Ísland mætir Danmörku á föstudag
Önnur umferð riðlakeppninnar í úrslitakeppni EM U19 landsliða kvenna fer fram á föstudag. Þrír leikir fara fram kl. 16:00, en kl. 19:15 mæta Íslendingar Dönum á Kópavogsvelli. Frítt er á alla leikina í boði Orkuveitu Reykjavíkur.
Topplið A-riðils mætast á Fylkisvelli þegar Norðmenn og Þjóðverjar leika, en Norðmenn unnu íslenska liðið sem kunnugt er með fimm mörkum gegn engu á miðvikudag. Þjóðverja unnu hins vegar Dani með einu marki gegn engu.
Efsta lið B-riðils, Frakkland, mætir Englendingum á Akranesvelli, en Englendingar náðú að bjarga stigi gegn Pólverjum í fyrstu umferð með marki þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Pólverjar og Spánverjar mætast á Grindavíkurvelli.
Knattspyrnuáhugafólk er hvatt til að þess að skella sér á völlinn og fylgjast með efnilegustu knattspyrnukonum í Evrópu leika listir sínar.
Íslenska liðið vonast eftir góðum stuðningi áhorfenda, sem getur skipt sköpum í leiknum gegn Dönum á Kópavogsvelli.
Allir á völlinn að styðja stelpurnar okkar!