Norskur sigur á Laugardalsvelli
Norðmenn lögðu Íslendinga með fimm mörkum gegn engu í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni EM U19 landsliða kvenna, en liðin mættust á Laugardalsvelli í kvöld. Noregur hefur því tyllt sér á topp A-riðils.
Okkar stelpur áttu í fullu tré við þær norsku lengst af í fyrri hálfleik og það var því mikið reiðarslag fyrir íslenska liðið þegar Maren Mjelde skoraði tvö mörk fyrir Noreg undir lok fyrri hálfeiks, það fyrra með langskoti á 41. mínútu og það síðara úr vítaspyrnu á lokamínútu hálfleiksins.
Í síðari hálfleik var svipað uppi á teningnum og jafnræði með liðunum, þar til um miðjan hálfleikinn þegar norska liðið gerði tvö mörk nánast á sömu mínútunni, fyrst Ingvild Isaksen og þá Ida Elise Enget.
Lokamark leiksins gerði svo Elise Thorsnes á 83. mínútu með skalla eftir hornspyrnu.
Á heildina litið var fimm marka ósigur alltof stór miðað við gang leiksins, því íslenska liðið var að leika ágætlega á löngum köflum og hefði með smá heppni getað sett eitt eða tvö mörk.
Næsta verkefni liðsins er á föstudag, en þá leika okkar stelpur við Danmörku á Kópavogsvelli og hefst leikurinn kl. 19:15. Sama dag fara fram þrír aðrir leikir og hefjast þeir allir kl. 16:00. Á Fylkisvelli mætast Noregur og Þýskaland, en þessi lið eru með Íslandi í riðli. Pólland og Spánn leika í Grindavík og Englendingar mæta Frökkum á Akranesi.
Knattspyrnuáhugafólk er hvatt til að fjölmenna á leikina og styðja þessar ungu og efnilega knattspyrnukonur. Góður stuðningur áhorfenda á Akranesvelli getur skipt sköpum fyrir íslenska liðið. Mætum öll og styðjum við bakið á stelpunum!
Áfram Ísland, alltaf, alls staðar!