Platini afhendir sigurverðlaunin
Á miðvikudaginn verður flautað til leiks í úrslitakeppni EM U19 kvenna en mótið er sem kunnugt er haldið hér á landi. Þrír leikir hefjast kl. 16:00 á miðvikudaginn en fjórði leikurinn, á milli Íslands og Noregs, hefst kl. 19:15 á Laugardalsvelli.
Nú er ljóst að forseti UEFA, Michel Platini, mun verða viðstaddur úrslitaleikinn og afhendir nýbökuðum Evrópumeisturum sigurverðlaunin. Úrslitaleikurinn sjálfur fer fram á Laugardalsvelli 29. júlí og verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Eurosport eins og annar undanúrslitaleikurinn.
Fulltrúar frá UEFA komu til landsins í síðustu viku til að leggja lokahönd á undirbúning mótsins. Ásamt þeim munu starfsmenn KSÍ starfa við mótið ásamt miklum fjölda sjálfboðaliða. Keppnisliðið byrjuðu að koma um helgina og eru þau síðustu væntanlega til landsins í dag.
Orkuveitan býður öllum frítt inn á leiki mótsins og eru landsmenn hvattir til þess að láta ekki þetta tækifæri fram hjá sér fara. Á mótinu leika efnilegustu leikmenn Evrópu í kvennaboltanum og ljóst er að íslensku stelpurnar þurfa allan þann stuðning sem mögulegur er í sínum leikjum.
Vellirnir sem leikið er á eru: Laugardalsvöllur, KR-völlur, Víkingsvöllur, Fylkisvöllur, Kópavogsvöllur, Akranesvöllur og Grindavíkurvöllur.
Vert er að vekja athygli á umfjöllum heimasíðu UEFA um mótið en hægt er að skoða fréttir þaðan hér að neðan.