Mikill fjöldi sjálfboðaliða við úrslitakeppni EM U19 kvenna
Eins og kunnugt er hefst úrslitakeppni EM U19 kvenna hér á landi 18. júlí næstkomandi. Mikill fjöldi sjálfboðaliða mun starfa með einum eða öðrum hætti við keppnina og hefur gengið vel að manna þau störf.
Rúmlega 50 manns leysa ýmis störf t.d. að vera fylgdarmenn keppnisliðanna og dómara. Þá munu ungir iðkendur ganga með með leikmönnum liðanna inn á leikvöllinn og má ætla að um 70 iðkendur komi þar að.
Keppnisþjóðirnar sjö er koma hingað til lands munu vera fyrirferðamiklar og munu um 220 manns fylla hóp keppenda, þjálfara, liðsstjóra og annarra þeirra er fylgja liðunum.
Þá er ótalið sá hópur er kemur frá UEFA til þess að sjá um framkvæmd keppninnar ásamt KSÍ. Um 40 manns skipa þann hóp og sjá um verkefni eins og lyfjapróf, meiðslagreiningu, fréttaflutning og annað sem tilheyrir á stórmóti sem þessu. Þá verða tveir leikir sýndir í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Eurosport og munu aðilar á hennar vegum mæta einnig til landsins.
Það verður því mikið um að vera upp úr miðjum júlí en fyrstu leikirnir verða leiknir 18. júlí.