• lau. 30. jún. 2007
  • Lög og reglugerðir

Breytingar á tveimur reglugerðum samþykktar

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum þann 28. júní 2007 breytingar á tveimur reglugerðum sambandsins og má sjá þær breytingar hér að neðan. 

Annars vegar var gerð breyting á reglugerð KSÍ um félagskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga og snýr sú breyting að félagaskiptatímabilum.  Frá og með 1. júlí n.k. verða félagaskiptatímabil á Íslandi eftirfarandi:

Fyrra félagaskiptatímabil:               20. febrúar til 15. maí

Seinna félagaskiptatímabil:              15. júlí til 31. júlí

Sú breyting er frá áður samþykktri reglugerð að fyrra félagaskiptatímabil  styttist og hefur breytingin því ekki áhrif fyrr en á næsta keppnistímabili. Breytingin er tilkomin vegna kröfu FIFA um að lengra félagaskiptatímabilið næði aðeins yfir 12 vikur.  Annað í áður birtri reglugerð er óbreytt.

Hins vegar var gerð breyting á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót og snýr sú breyting að bikarkeppni karla.  Tvær greinar reglugerðarinnar breytast frá og með 1. janúar 2008 og hljóða þá svo:

23.2.5. Í undankeppni taka þátt öll lið nema þau, sem taka þátt í Landsbankadeild. Svæðakeppni skal viðhöfð í undankeppninni og keppni liðanna hagað svo, að 20 lið komist áfram í aðalkeppnina. Skal undankeppni lokið fyrir miðjan  júní.

23.2.6. Aðalkeppnin (32-liða úrslit) skal hefjast eftir miðjan júní og hefja þá liðin sem leika í Landsbankadeild þátttöku. Mótanefnd skal jafnframt heimilt í vissum tilfellum að ákveða að leikur fari fram á hlutlausum velli ef rökstudd ósk þess efnis berst frá báðum aðilum sökum fjarlægðar.

Breytingin er gerð þar sem á næsta ári verða 12 lið í Landsbankadeild karla.  Með þessari breytingu hefja liðin úr Landsbankadeild karla keppni í 32 liða úrslitum ásamt þeim 20 liðum sem áfram komast úr undankeppni á næsta keppnistímabili.  Í 32 liða úrslitum verður dregið óbundið eins og í öðrum umferðum bikarkeppninnar og geta þá hvaða lið sem er lent saman og fær það lið sem dregið er á undan heimaleik. Annað í áður birtri reglugerð er óbreytt.

Forráðamenn félaga eru beðnir um að vekja athygli á ofangreindum breytingum.