Glæstur sigur Íslands á Serbíu
Íslenska kvennalandsliðið skemmti 5.976 áhorfendum konunglega þegar þær lögðu Serbíu örugglega í kvöld. Lokatölur urðu 5-0 Íslandi í vil eftir að staðan í hálfleik hafði verið 2-0. Aldrei hafa áhorfendur verið fleiri á kvennalandsleik á Íslandi og frábær stuðningur kveikti svo sannarlega í íslenska liðinu.
Það var ljóst í upphafi að stelpurnar mættu gríðarlega ákveðnar til leiks og hófu stórsókn strax í upphafi. Aðeins voru liðnar tæpar þrjár mínútur af leiknum þegar að Dóra Stefánsdóttir kom íslenska liðinu á bragðið með glæsilegu viðstöðulausu skoti sem hafnaði neðst í markhorninu. Á 23. mínútu bætti svo Dóra María Lárusdóttir við öðru marki liðsins og þannig var staðan er liðin gengu til búninsherbergja.
Byrjun seinni hálfleiks var heldur rólegri heldur en í þeim fyrri en íslenska liðið var alltaf með yfirhöndina. Á 57. mínútu skallaði Katrín Jónsdóttir, í sínum 65. landsleik, boltann upp í marhornið eftir hornspyrnu og staðan orðin 3-0. Markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir var næst á dagskrá og á 81. mínútu skoraði hún fjórða mark Íslands. Markið var 28. landsliðsmark Margrétar Láru í 34. landsleikjum, hreint ótrúlegur árangur. Fimmta og síðasta markið kom svo á 86. mínútu og var það sjálfsmark Serba en varamennirnir Erla Steina Arnardóttir og Katrín Ómarsdóttir komu þar mikið við sögu. Skömmu síðar byrjuðu áhorfendur að syngja sigursöngva og mikill fögnuður braust út þegar að Dagmar Damkova frá Tékklandi flautaði til leiksloka.
Áhorfendur, leikmenn og aðstandendur fögnuðu að vonum í leikslok enda frábær sigur í höfn við frábærar aðstæður. Það kom berlega í ljóst hvað góður stuðningur hefur mikið að segja fyrir landsliðið.
Íslenska liðið er með fullt hús stiga eftir 3 leiki og trónir á toppi riðilsins. Næsti leikur liðsins er gegn Slóvenum ytra 26. ágúst.