• þri. 19. jún. 2007
  • Landslið

Góður sigur hjá U19 gegn Svíum

U19-isl-eng-2006
U19-isl-eng-2006

Íslenska U19 kvennalandsliðið bar í gær sigurorð af Svíum í vináttulandsleik sem fram fór í Norrtalje í Svíþjóð.  Lokatölur urðu 0-1 og var það Rakel Hönnudóttir sem skoraði sigurmark íslenska liðsins á 64. mínútu.

Um 700 áhorfendur voru mættir á völlinn og var það sænska liðið sem var meira með boltann en það íslenska varðist mjög vel og ógnaði með skyndisóknum.  Eftir markalausan fyrri hálfleik var það Rakel Hönnudóttir er fann netmöskvana á 64. mínútu.  Íslensku stelpurnar vörðust svo vel það sem eftir lifði leiks og innbyrtu sigurinn.

Sigurinn er gott veganesti fyrir stelpurnar þegar þær mæta sterkustu þjóðum Evrópu í sínum aldursflokki hér í júlí.  Fyrsti leikur stelpnanna er gegn Noregi á Laugardalsvelli 18. júlí kl. 19:15.  Í kjölfarið fylgja svo leikir við Danmörku og Evrópumeistara Þjóðverja.

Þessi góði sigur hjá U19 liðinu fylgir eftir glæstum sigri A-landsliðsins gegn Frökkum sl. laugardag.  Nú er að stefna á þrennuna hjá stelpunum en hún næst með sigri gegn Serbum á fimmtudaginn.

Styðjum stelpurnar

ÁFRAM ÍSLAND!!