• lau. 16. jún. 2007
  • Landslið

Frábær sigur á Frökkum

Marki Margrétar Láru gegn Frökkum fagnað af innlifun
Island_Frakkland_kv_16juni_2007_marki_fagnad

Íslendingar unnu frábæran sigur á Frakklandi í dag með einu marki gegn engu.  Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði mark Íslands á 81. mínútu eftir fyrirgjöf frá Dóru Maríu Lárusdóttur.  Íslenska liðið varðist frábærlega og gaf Frökkum fá færi á sér.

Franska liðið var heldur meira með boltann en íslenska liðið varðist af festu og ógnaði með skyndisóknum.  Franska liðinu, sem hafði unnið tvo fyrstu leiki sína með sex mörkum gegn engu, gekk illa að skapa sér opin færi og ef til þess kom þá sá Þóra Helgadóttir við þeim í markinu.

Staðan var markalaust þegar flautað var til hálfleiks og lék íslenska liðið með ákveðna golu í bakið í seinni hálfleik.  Hálfleikurinn þróaðist líkt og sá fyrri, franska liðið meira með boltann en Íslendingar ógnuðu með skyndisóknum.  Á 81. mínútu fór Dóra María upp hægri kantinn og sendi fyrir markið.  Þar var Margrét Lára mætt og skallaði að marki.  Franski markvörðurinn varði glæsilega en boltinn rúllaði samt sem áður, ákaflega hægt að mati 1667 áhorfenda, yfir marklínuna.

Fögnuður stelpnanna og áhorfenda að vonum mikill og franska liðið sótti stíft það sem eftir lifði leiks.  Eftir tveggja mínútna uppbótartíma flautaði dómari leiksins, Wendy Toms frá Englandi, til leiksloka og stelpurnar stigu trylltan sigurdans á vellinum.

Frábær sigur hjá stelpunum og íslenska liðið með fullt hús eftir tvo leiki.  Á fimmtudaginn koma Serbar í heimsókn og má búast við gríðalega spennandi leik þar.  Leiktíminn er óvenjulegur, kl. 21:15 og eru áhorfendur hvattir til þess að fylkja sér að baki íslenska liðinu og láta vel í sér heyra.

Riðillinn

ÁFRAM ÍSLAND