• fös. 15. jún. 2007
  • Landslið

Tvisvar áður verið í riðli með Frökkum

Katrín Jónsdóttir í leik gegn Tékkum á Laugardalsvelli 2006
Katrin_Jonsdottir_i_leik

Íslenska kvennalandsliðið hefur tvisvar sinnum áður verið með Frökkum í riðli í undankeppni EM, en það var fyrir úrslitakeppnirnar 1997 og 2005.  Þetta eru einu skiptin sem þessar þjóðir hafa mæst í A-kvennalandsleik - í fyrsta leiknum gerðu liðin jafntefli, en Frakkar unnu hina þrjá leikina.

Fyrsta viðureignin fór fram á Akranesvelli í september 1995 og gerðu liðin þá 3-3 jafntefli.  Ísland leiddi 3-1 í hálfleik, en þær frönsku skoruðu tvívegis í síðari hálfleik.  Mörk Íslands í leiknum gerðu þær Jónína Víglundsdóttir, Margrét Ólafsdóttir og Ásthildur Helgadóttir, sem er eini leikmaðurinn úr þeim leik sem enn leikur með landsliðinu.

Næst mættust liðin í Frakklandi í júní 2006 og höfðu Frakkar þá 3-0 sigur.  Í liði Íslands í þeim leik voru Ásthildur Helgadóttir og Katrín Jónsdóttir, sem eru einnig í hópnum nú.

Ísland hafnaði í 3. sæti af 4 liðum í undankeppninni fyrir EM 1997, Frakkar höfnuðu í 2. sæti, en Rússar sigruðu í riðlinum.

Í undankeppninni fyrir EM 2005 voru þessar þrjár þjóðir aftur saman í riðli, þ.e. Íslendingar, Frakkar og Rússar.  Að þessu sinni voru það Frakkar sem höfnuðu í efsta sæti riðilsins en Rússar í 2. sæti.  Íslenska liðið hafnaði í 3. sætinu aftur, en þar fyrir neðan voru Ungverjar og Pólverjar.

Báðum viðureignum íslenska liðsins við það franska lauk með frönskum sigri, 2-0 í Frakklandi og 3-0 á Laugardalsvellinum í Reykjavík.