Bruno Bini þjálfar landslið Frakka
Þjálfari kvennalandsliðs Frakka er Bruno Bini, en hann tók við liðinu í febrúar á þessu ári. Hann þjálfaði áður U19 kvennalandslið Frakka og gerði það lið m.a. að Evrópumeisturum árið 2003.
Bini byrjaði ágætlega með A-landslið Frakka, vann 2-0 sigur á Kína í sínum fyrsta leik, en liðið steinlá síðan í fyrsta leik liðsins á Algarve Cup, 0-4 gegn Dönum. Í kjölfarið komu tveir 1-0 sigrar á mótinu, gegn Norðmönnum og Þjóðverjum, og loks 1-3 tap gegn Svíum í leik um 3. sætið.
Franska liðið hefur byrjað með látum í undankeppni EM 2009 undir stjórn Binis og fyrstu tvo leikina hefur liðið unnið 6-0. Fyrst gegn Grikkjum og síðan gegn Slóvenum, en báðir þessir leikir fóru fram í Frakklandi.