Góður sigur í Grikklandi
Ísland vann góðan útisigur í sínum fyrsta leik sínum í undankeppninni fyrir EM 2009. Leikið var gegn Grikklandi ytra og bar íslenska liðið sigurorð af því gríska með lokatölunum 0-3. Íslenska liðið leiddi í hálfleik með tveimur mörkum.
Stelpurnar byrjuðu af krafti og eftir 8 mínútna leik var brotið á Margréti Láru innan vítateigs. Dóra María Lárusdóttir gerði vel í því að koma boltanum inn í teiginn til Margrétar sem komin var í gott færi þegar brotið var á henni. Stillti hún boltanum sjálf á punktinn og skoraði af fádæma öryggi. Aðeins sex mínútum síðar tók Edda Garðarsdóttir aukaspyrnu og fyrirliðinn, Ásthildur Helgadóttir, skallaði boltann laglega í netið.
Íslensku stelpurnar höfðu undirtökin þó svo að leikurinn róaðist eftir þessa kraftmiklu byrjun íslenska liðsins. Staðan var því 0-2 þegar að liðin gengu til búningsherbergja og var hvíldin kærkomin enda heitt í veðri í henni Aþenu.
Stelpurnar byrjuðu seinni hálfleikinn af sama krafti og þann fyrri og sóttu grimmt að marki heimamanna án þess þó að skora, þrátt fyrir góð tækifæri. Leikurinn róaðist svo aftur um miðbik hálfleiksins og var það ekki fyrr en á síðustu mínútum leiksins að dró til tíðinda að nýju.
Edda Garðarsdóttir tók hornspyrnu á 90. mínútu og barst boltinn til Gretu Mjallar Samúelsdóttur sem skoraði örugglega með góðu skoti.
Góður sigur staðreynd hjá stelpunum en róðurinn mun svo sannarlega þyngjast í næsta leik þegar að Frakkar koma í heimsókn í dalinn. Fer sá leikur fram laugardaginn 16. júní kl. 14:00. Frakkar hafa byrjað riðilinn af krafti, leikið tvo leiki og sigrað þá báða á heimavelli með sex mörkum gegn engu. Það er ljóst að við ramman reip verður að draga og munu áhorfendur koma til með að gegna miklu hlutverki í þeim leik.