Byrjunarlið Íslands gegn Grikklandi
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt byrjunarlið sitt er mætir Grikkjum ytra í dag kl. 15:00. Leikurinn er fyrsti leikur Íslands í undankeppni fyrir EM 2009 en úrslitakeppnin fer fram í Finnlandi.
Byrjunarliðið (4-4-2):
Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir
Vinstri bakvörður: Guðný Óðinsdóttir
Hægri bakvörður: Sif Atladóttir
Miðverðir: Guðrún Sóley Gunnarsdóttir og Katrín Jónsdóttir
Vinstri kantur: Rakel Logadóttir
Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir
Framherjar: Margrét Lára Viðarsdóttir og Ásthildur Helgadóttir, fyrirliði
Adolf Ingi Erlingsson, íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins, er staddur í Grikklandi og mun hann lýsa leiknum á Rás 2 en leikurinn hefst kl. 15:00 að íslenskum tíma.
Ísland hefur tvisvar leikið gegn Grikkjum áður í A-landsleik kvenna. Voru þeir í undakeppni EM og fór sá fyrri fram 1994 en sá síðari 1995. Ísland sigraði í báðum leikjunum í þeim fyrri 3-0 og seinni leikurinn, sem fram fór ytra, endaði 1-6. Ásthildur Helgadóttir, fyrirliði Íslands í leiknum í dag, lék í báðum leikjunum og skoraði 4 mörk í seinni leiknum.
Í seinni leiknum kom inn á sem varamaður Katrín Jónsdóttir og lék hún þar sinn þriðja landsleik. Í dag leikur Katrín sinn 62. landsleik og fagnar einnig 30 ára afmæli sínu. Við skulum vona að afmælisdagurinn verði sérstaklega ánægjulegur í þetta skiptið.
Í gær mættust Frakkar og Slóvenar en þessar þjóðir eru með Íslendingum í riðli. Frakkar unnu öruggan sigur á heimavelli með sex mörkum gegn engu. Íslendingar taka á móti Frökkum í sínum fyrsta heimaleik, laugardaginn 16. júní. Serbar koma svo í heimsókn fimmtudaginn 21. júní.