Dregið í riðla í úrslitakeppni EM U19 kvenna
Á morgun, miðvikudaginn 23. maí, verður dregið í riðla í úrslitakeppni EM U19 kvenna en keppnin fer fram hér á landi 18. - 29. júlí næstkomandi. Fjölmargir gestir, innlendir sem erlendir, verða viðstaddir athöfnina sem hefst kl. 18:00.
Fulltrúar frá UEFA eru komnir til landsins og einnig verða fulltrúar allra knattspyrnusamabandanna er taka þátt í úrslitakeppninni, þ.á.m. flestir landsliðsþjálfararnir. Það verða Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnukona ársins 2006 og Vilhjálmur Vilhjálmsson borgarstjóri sem verða til aðstoðar við dráttinn.
Þær þjóðir er eiga lið í hattinum á morgun eru ásamt Íslendingum, England, Spánn, Pólland, Danmörk, Frakkland, Noregur og núverandi handhafar titilsins, Þjóðverjar.
Fulltrúar þjóðanna munu svo eyða fimmtudeginum í að skoða keppnis- og æfingaaðstöðu er lið þeirra nota á meðan að dvöl þeirra stendur hér í júlí.
Þetta verkefni er það langstærsta er Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðist í og væri ekki framkvæmanlegt ef ekki kæmi til krafta félaganna og sjálfboðaliða innan þeirra. Viðbrögðin á þeim bæjum hafa verið frábær og eiga félögin miklar þakkir skildar fyrir þeirra framlag til framkvæmd keppninnar.
Enn vantar þó einhverja sjálfboðaliða fyrir keppnina, m.a. vantar fylgdarmenn fyrir keppnislið Frakklands og Spánar. Þeir sem hafa áhuga eru hvattir til þess að senda tölvupóst á klara@ksi.is.