Öruggur sigur Englendinga
Íslenska kvennalandsliðið laut í lægra haldi gegn stöllum sínum frá Englandi er þjóðirnar mættust í vináttulandsleik á Roots Hall í kvöld. Lokatölur urðu þær að Englendingar gerður fjögur mörk án þess að Íslendingar næðu að skora.
Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 2-0, heimastúlkum í vil. Fyrra mark þeirra kom á 24. mínútu og það síðara á lokasekúndum fyrri hálfleiks. Enska liðið var sterkara í fyrri hálfleik og verðskuldaði forystuna.
Í seinni hálfleik jafnaðist leikurinn en þær ensku höfðu þó ávallt yfirhöndina. Íslensku stelpurnar náðu þó að halda þeim í skefjum en á fimm mínútna kafla gerðu Englendingar út um leikinn. Þær skoruðu á 65. mínútu og fengu svo dæmda vítaspyrnu tveimur mínútum síðar. Þóra Helgadóttir gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna en hún kom engum vörnum við þremur mínútum síðar er fjórða markið leit dagsins ljós. Hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum fyrir leikslok og lokatölur urðu því 4-0.
Þjóðirnar höfðu komist að samkomulagi fyrir leikinn að, sama hverjar lokatölur yrðu, efnt til vítaspyrnukeppni í leikslok. Var þetta að beiðni Englendinga en enska liðið undirbýr sig af kostgæfni fyrir HM í Kína sem fram fer í september á þessu ári.
Allir ellefu leikmenn liðanna sem voru inn á tóku víti og fór svo að íslenska liðið skoraði úr átta spyrnum en það enska einungis úr fimm. Þóra Helgadóttir fór hamförum í markinu í vítakeppninni og skoraði einnig úr fyrstu spyrnu íslenska liðsins.