Tap gegn Belgum hjá U17 karla
Íslenska U17 karlalandsliðið lauk í gær þátttöku sinni í úrslitakeppni EM í Belgíu þegar liðið tapaði gegn gestgjöfum Belga. Lokatölur urðu 5-1 heimamönnum í vil eftir að staðan í hálfleik hafði verið jöfn, 1-1.
Fyrir leikinn áttu strákarnir ekki möguleika á því að komast í undanúrslit keppninnar en með sigri hefði umspilsleikur um sæti á HM verið tryggður. Það tókst ekki en engu að síður frábær árangur hjá strákunum að komast í sjálfa úrslitakeppnina.
Með sigrinum tryggðu Belgar sér sæti í undanúrslitum og mæta þeir sigurvegurum A-riðils, Spánverjum. Í hinum undanúrslitaleiknum eigast við Englendingar og Frakkar. Hollendingar og Þjóðverjar eigast svo við í umspilsleik um eitt sætir á HM í Suður-Kóreu.