Strákarnir töpuðu gegn Hollendingum
Íslendingar töpuðu sínum öðrum leik í úrslitakeppni EM U17 karla er fram fer í Belgíu. Hollendingar knúðu fram sigur með þremur mörkum gegn engu, eftir að hafa haft eins marks forystu í hálfleik. Lokaleikur liðsins í riðlinum er leikinn á mánudaginn þegar að strákarnir mæta gestgjöfum Belga.
Hollendingar komust yfir á 23. mínútu og gengu til hálfleiks með það mark í farteskinu. Þeir bættu svo öðru marki við á 52. mínútu og þriðja markið kom á lokamínútunni.
Önnur úrslit kvöldsins urðu að Belgar og Englendingar gerðu jafntefli, 1-1, en þær þjóðir eru í riðli með Íslendingum. Spánverjar unnu Úkraínu, 3-1 og Frakkar sigruðu Þjóðverja, 2-1.
Úrslitin þýða að Íslendingar eiga ekki möguleika á að komast í undanúrslit en með sigri í lokaleiknum, gegn Belgum, komast strákarnir í umspilsleik um sæti á HM í Suður-Kóreu. Það er því til mikils að vinna fyrir strákana en leikurinn gegn Belgum er leikinn á mánudaginn, kl. 15:30 að íslenskum tíma.