• mið. 02. maí 2007
  • Landslið

Úrslitakeppni EM U17 hafin

Merki UEFA U17 karla úrslitakeppni í Belgíu
U17_karla_Belgia

U 17 karlalandslið Íslands hefur leik í dag í úrslitakeppni EM sem fram fer í Belgíu. Leikið verður við Englendinga í dag og hefst leikurinn kl. 14:00 að íslenskum tíma. Á föstudaginn er svo leikið við Hollendinga og lokaleikur riðilsins er svo við heimamenn á mánudaginn.

Tvær efstu þjóðirnar í hvorum riðli komast í undanúrslit. Þær þjóðir er lenda í þriðja sæti í riðlunum munu hinsvegar leika leik um fimmta sætið en sigur í þeim leik tryggir þátttöku á HM U17 sem fram fer í Suður Kóreu í ágúst og september.

Í hinum riðlunum leika Þýskaland, Úkraína, Frakkland og Spánn.

Framherjinn Kolbeinn Sigþórsson á við meiðsli að stríða og er óvíst um hvort hann verði með í fyrsta leiknum gegn Englandi.

Árangur íslensku strákana hefur vakið verðskuldaða athygli um Evrópu en þeir byrjuðu á því að leika í undanriðli sem fram fór í Rúmeníu. Íslendingar tryggðu sér þar annað sætið í riðlinum og komust því áfram í milliriðla. Frakkar sigruðu riðilinn en Rúmenar og Litháar sátu eftir.

Milliriðill Íslands var svo leikinn í Portúgal og þar sigruðu íslensku strákarnir riðilinn. Handhafar Evrópumeistaratitilsins, Rússar, Portúgalir og Norður Írar sátu hinsvegar eftir því efsta þjóðin komst ein áfram.

Fyrsti leikur Íslands í úrslitakeppninn í Belgíu, gegn Englendingum, er leikinn í Ronse og þar er einnig leikið við Hollendinga. Leikurinn gegn Belgum fer fram í Tournai en þar er úrslitaleikur keppninnar einnig leikinn.

Margir frægir leikmenn hafa vakið athygli í úrslitakeppni EM U17 í gegnum árin. Árið 2002 var besti leikmaður keppninnar valinn Wayne Rooney og árið 2004 hlaut Cesc Fabregas þá nafnbót.

Sjónvarpsstöðin Eurosport mun sýna nokkra leiki keppninnar í beinni útsendingu en margir Íslendingar hafa aðgang að þeirri sjónvarpsstöð.

Hægt er að nálgast fréttir frá keppninni í Belgíu og ýmsan fróðleik á heimasíðu UEFA.