• sun. 01. apr. 2007
  • Landslið

Mótherjar U17 karla klárir í úrslitakeppni EM í Belgíu

Sæti í úrslitakeppninni í höfn
U17_karla_-_Eftir_leik

Glæsilegur árangur hjá strákunum í U17 karla hefur vakið töluverða athygli víðsvegar um Evrópu.  Það er gleðilegt að tvö íslensk landslið taka þátt í úrslitakeppni EM á þessu ári en stúlkurnar í U19 kvenna leika í úrslitakeppni hér á landi í júlí.

Nú er ljóst hvaða átta þjóðir leika í úrslitakeppninni.  Ásamt Íslendingum eru það gestgjafar Belga, Holland, England, Úkraína, Þýskaland, Frakkland og Spánn.

Úrslitakeppni EM U17 karla verður haldin í Belgíu, dagana 2. - 13. maí nk.  Dregið verður í riðla 4. apríl og verður dregið í Tubize í Belgíu.  Leikið verður á leikvöllum félaga í 2. og 3. deild í Belgíu og rúma þeir flestir yfir 5000 manns.  Rúmlega helmingur leikjanna verður sýndur í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Eurosport en margir Íslendingar hafa aðgang að henni. 

Átta þjóðir munu berjast um Evróputitilinn en meira er í húfi en titillinn sjálfur.  Fimm þjóðir af þessum átta munu tryggja sér sæti í úrslitakeppni HM sem fram fer í Suður Kóreu, 18. ágúst til 9. september.

Úrslitakeppni U19 kvenna er haldin hér á landi, dagana 18. - 29. júlí.  Milliriðlar keppninnar eru leiknir dagana 9. - 15. apríl og verður þá ljóst hvaða þjóðir mæta hingað til leiks.