• þri. 27. mar. 2007
  • Leyfiskerfi

Viðurlög í leyfiskerfinu

Keppnisvellir þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði
Kaplakriki_001

Síðastliðinn föstudag lauk leyfiskerfinu fyrir félög í Landsbankadeild með ákvörðunum leyfisráðs sem kynntar voru hér á vefnum.  Öll félögin 10 hlutu þátttökuleyfi, en þrjú félög sættu sektum vegna dráttar á skilum á gögnum.

Stjórn KSÍ ákveður viðurlög við einstökum brotum að fengnum tillögum frá leyfisstjórn.  Mögulegt er að áfrýja þeim úrskurði til dómstóls KSÍ. 

En hvaða viðurlögum geta félög sem undirgangast leyfiskerfið átt von á og í hvaða tilfellum er þeim beitt?  Hvert og eitt tilfelli er metið sérstaklega.  Hér er grundvallaratriði að gera greinarmun á forsenduflokkunum tveimur - A og B. 

A-forsendur hafa þyngra vægi.  Ef A-forsenda er ekki uppfyllt getur það þýtt að viðkomandi félag fái ekki þátttökuleyfi í deildinni og þarf því að leika í næstu deild fyrir neðan á komandi keppnistímabili. 

Dæmi um A-forsendur:

  • Ársreikningur með fullri áritun endurskoðanda.
  • Menntun þjálfara meistaraflokks og menntun þjálfara yngri flokka.
  • Fullnægjandi aðstaða fyrir áhorfendur.
  • Samþykkt áætlun um knattspyrnulegt uppeldi ungra leikmanna.

Ef B-forsenda er hins vegar ekki uppfyllt geta félög m.a. verið sektuð, en vanefndir á B-forsendum geta ekki komið í veg fyrir að viðkomandi félög fái þátttökuleyfi.   

Dæmi um B-forsendur:

  • Fjöldi fánastanga á leikvangi, markatafla, leikklukka.
  • Starfslýsingar.

Dráttur á skilum á gögnum algengasta ástæðan

Algengasta ástæðan fyrir því að viðurlögum hefur verið beitt á þeim fimm árum sem félög í Landsbankadeild hafa undirgengist leyfiskerfi hefur þó verið dráttur á skilum á gögnum, og í langflestum tilfellum hefur dregist að skila fjárhagslegum gögnum.

Úr leyfishandbókinni:

2.2.3.2        Tímamörk ekki uppfyllt

Ef leyfisumsækjandi uppfyllir ekki sett tímamörk um framlagningu leyfisgagna skal hann sæta viðurlögum.  Við ákvörðun þeirra skal taka mið af alvarleika brotsins.  Eftirfarandi viðurlögum er hægt að beita:

1)   Viðvörun og sekt; við fyrsta brot skal beita dagsektum að upphæð kr 1.500 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 30.000.

2)   Áminning og sekt; við ítrekað brot skal skal beita dagsektum að upphæð kr 3.000 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 60.000.

3)   Stigatap; við alvarlegt og ítrekað brot er jafnframt heimilt að draga allt að 3 stig frá félaginu í deildarkeppninni.

Krefjandi starf

Ljóst er að miklar kröfur eru gerðar til þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfið og vinna við undirbúning leyfisumsókna er krefjandi. 

Leyfisstjóri fer með stjórn leyfismála og veitir félögunum stuðning og ráðgjöf við undirbúning leyfisumsókna.  Ábyrgðin á að framlögð gögn séu fullnægjandi hvílir þó alltaf á herðum leyfisumsækjanda, þ.e. félaginu sjálfu.