• mán. 26. mar. 2007
  • Landslið

60 ára afmælið haldið hátíðlegt á Mallorca

Fyrirliðinn, formaðurinn og þjálfarinn sker á kökuna í tilefni af 60 ára afmæli KSÍ, 26. mars 2007.  Landsliðið er statt á Mallorca í undirbúningi fyrir leik gegn Spánverjum.
60_ara_afmali_a_Mallorca

Knattspyrnusambandinu bárust margar góðar kveðjur í tilefni af 60 ára afmælinu og á sólareyjunni Mallorca var afmælisins minnst.  Þar eru landsliðsmennirnir á fullu í undirbúningi fyrir landsleikinn gegn Spánverjum, sem fram fer á miðvikudaginn.

Strákarnir hafa æft fjórum sinnum og er ákaflega góð stemmning í hópnum fyrir þennan stórleik.  Aðstæður eru hinar bestu og þótti tilhlýðilegt að bjóða upp á afmælistertu eftir matinn í kvöld.  Fyrirliðinn  Eiður Smári Guðjohnsen, formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson og landsliðsþjálfarinn Eyjólfur Sverrisson, fengu þann heiður að skera fyrstu sneiðina.

Var gerður ákaflega góður rómur að tertunni sem þótti ekki eingöngu með eindæmum bragðgóð heldur einnig meinholl.  Ekki síður var gerður góður rómur af ræðuhöldunum sem fylgdu í kjölfarið en voru skorin við nögl í þetta skiptið.

Leikurinn við Spánverja hefst á miðvikudaginn kl. 20:00 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn.

Arnar Þór Viðarsson og Kristján Örn Sigurðsson hógværir við afmæliskökuna en Björn Ragnar Gunnarsson, búningastjóri, hefur þegar tryggt sér myndarlega sneið.

Mynd: Arnar Þór Viðarsson og Kristján Örn Sigurðsson hógværir við afmæliskökuna en Björn Ragnar Gunnarsson, búningastjóri, hefur þegar tryggt sér myndarlega sneið.