Úrslitakeppni í Belgíu bíður U17 karla
Íslenska U17 landslið karla, undir stjórn Luka Kostic, tryggði sér í dag sæti í úrslitakeppni EM 2007 sem fram fer í Belgíu. Liðið tapaði ekki leik í milliriðlinum og lögðu ríkjandi Evrópumeistara Rússa í dag.
Fyrri hálfleikur Íslands og Rússlands í milliriðli fyrir EM var hreint með ólíkindum. Íslendingar leiddu í hálfleik með fimm mörkum gegn engu og gerði Kolbeinn Sigþórsson fjögur mörk í fyrri hálfleik og Frans Elvarsson gerði eitt.
Seinni hálfleikurinn byrjaði með sömu látum og Aaron Palomares skoraði á 43. mínútu(hálfleikurinn er 40 mínútur í þessum aldursflokki). Rússar náðu aðeins að klóra í bakkann með tveimur mörkum á 50. og 54.mínútu. Aðeins fór þá um íslenska áhorfendur á staðnum en fljótlega bárust fréttir af því að Norður Írar höfðu jafnað gegn Portúgal. Var þeim fregnum tekið með fögnuði.
Hinsvegar hófst þá stórsókn Rússa og skoruðu þeir þrjú mörk áður en yfir lauk. Lauk leiknum því með eins marks sigri Íslendinga, 6-5. Var því beðið með eftirvæntingu eftir úrslitum leiks Portúgala og Norður Íra. Lauk þeim leik með sigri heimamanna í Portúgal, 2-1. Þýddi það að Ísland og Portúgal voru jöfn að stigum, með sama markamun en Íslendingar komust áfram á fleiri skoruðum mörkum.
Árangurinn hjá hópnum er glæsilegur og hafa margar stórþjóðir verið lagðar af velli. Í undankeppninni varð liðið í öðru sæti riðils síns á eftir Frökkum en á undan Rúmenum og Litháum. Í milliriðlinum voru svo Rússar, Portúgalir og Norður Írar skildir eftir.
Úrslitakeppnin fer fram í Belgíu dagana 2. -13. maí nk. Belgar komast í úrslitakeppnina sem gestgjafar ásamt sjö öðrum þjóðum.
Hægt er að fylgjast með úrslitum og stöðum annarra riðla hér en úrslit allra riðla munu liggja fyrir 31. mars.
Það er glæsilegur árangur hjá strákunum að komast í úrslitakeppnina á sextugasta afmælisári Knattspyrnusambands Íslands. Þeir verða annað tveggja landsliða í úrslitum á næstunni en úrslitakeppni EM U19 kvenna verður haldin hér á landi í júlí. Þar munu íslensku stelpurnar í U19 halda uppi merki þjóðarinnar.
Mynd: Hópurinn sem náði þessum frækilega árangri í Portúgal. Myndirnar eru teknar af Kjartani Björnssyni.