• fim. 22. mar. 2007
  • Leyfiskerfi

Ákvarðanir leyfisráðs teknar á föstudag

Frá Laugardalsvelli
IMG_9697

Leyfisráð mun á föstudag taka ákvarðanir um veitingu þátttökuleyfa til félaga í Landsbankadeild karla 2007.  Niðurstöður fundarins, sem fram fer seinnipart dagsins, verða birtar hér á ksi.is að fundi loknum. 

Stjórn KSÍ samþykkti hins vegar á fundi sínum í dag, fimmtudag, að gefa félögum í 1. deild viku frest til viðbótar til að ganga frá lausum endum í tengslum við leyfisumsóknir þeirra.  Ákvarðanir leyfisráðs vegna leyfisumsókna félaga í 1. deild verða því teknar föstudaginn 30. mars. 

Vinna við leyfisumsóknir er gríðarlega umfangsmikil og því var ákveðið að koma til móts við félögin í 1. deild, sem flest hafa ekki undirgengist kerfið áður. 

Leyfisferlið sem nú stendur yfir er það fimmta í röðinni - það fyrsta var fyrir keppnistímabilið 2003 - en þetta er í fyrsta sinn sem leyfiskerfið nær einnig til 1. deildar. 

Rétt er að taka fram að keyrsla leyfiskerfisins í 1. deild 2007 er sett upp þannig að félögin fái reynslu af vinnuferlinu og þeim kröfum sem gerðar eru.  Félögin sem hafa unnið sér rétt til að leika í 1. deild 2007 munu öll leika í deildinni, en þó eru þau látin ganga í gegnum allt leyfisferlið og afgreiðsla leyfisumsókna þeirra verður eins og um fullt gildi væri að ræða.

Þannig verður tilgreint hvaða félögum hefði verið "synjað" um þátttökuleyfi, þ.e. ef A-forsendur eru ekki uppfylltar, og tilgreint verður hvaða viðurlögum félög hefðu verið beitt ef um fullt gildi hefði verið að ræða (sektir o.fl.).

Fyrir keppnistímabilið 2008 verða félög í 1. deild hins vegar skilyrðislaust að uppfylla allar kröfurnar, enda tekur leyfiskerfið þá formlega fullt gildi í þeirri deild.