• mið. 14. mar. 2007
  • Landslið

Byrjunarliðið gegn Kína

akvennahollandIMG_0362
akvennahollandIMG_0362

Núna kl. 10:00 hófst leikur Íslands og Kína á Algarve Cup en leikið er um níunda sætið á mótinu.  Sigurður Ragnar Eyjólfsson teflir fram sama byrjunarliði og í leiknum gegn Portúgal.  Fylgst verður með helstum fréttum af leiknum hér að neðan.

Byrjunarlið (4-4-2)

Markvörður: Þóra B. Helgadóttir

Hægri bakvörður: Erna B. Sigurðardóttir

Vinstri bakvörður: Dóra Stefánsdóttir

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir

Hægri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir

Vinstri kantur: Rakel Logadóttir

Tengiliðir: Eddar Garðarsdóttir og Erla Steina Arnardóttir

Framherjar: Margrét Lára Viðarsdóttir og Anna Björg Björnsdóttir

Ísland - Kína

Leikurinn hafinn og kínverska liðið heldur meira með boltann en íslenska liðið verst skynsamlega.  Á fyrstu 10. mínútunum hefur Þóra einu sinni þurft að verja boltann.  Kínverska liðið er greinilega í heldur betri leikæfingu heldur en íslenska liðið.  Kínverska liðið er hávaxnara heldur en leikmenn íslenska liðsins og eru fastar fyrir.

Fátt markvert sem hefur gerst í fyrri hálfleik.  Leikurinn er þó nokkuð harður en einungis eitt spjald liðið dagsins ljós.  Þá lyftir dómarinn, sem er frá Gíneu, gulu spjaldi til handa Katrínu Jónsdóttur fyrirliða.  Kínverska liðið hefur hinsvegar fengið flest gul spjöld á mótinu til þessa.

Hólmfríður Magnúsdóttir, sem leikur sinn 25. landsleik í dag, er markahæsti leikmaður mótsins til þessa ásamt Carli Lloyd frá Bandaríkjunum.  Þær hafa báðar skorað þrjú mörk.

Staðan í hálfleik er 0-0 en þeir Sigurður Ragnar og Guðni Kjartansson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, gera tvær breytingar í leikhléi.  Þær Anna Björg Björnsdóttir og Erla Steina Arnardóttir koma út en inná fyrir þær koma Dóra María Lárusdóttir og Ásta Árnadóttir.

Ísland komið yfir!!  Dóra María Lárusdóttir kom íslenska liðinu yfir á 68. mínútu.  Ekki tókst að fá nánari upplýsingar um markið frá heimildarfólki á staðnum sökum mikillar gleði.  Ein skipting átti sér stað áður, á 56. mínútu, Greta Mjöll Samúelsdóttir kom inn fyrir Rakel Logadóttur.

Ótrúlegir hlutir að gerast!!

Staðan er orðin 4-0 Íslandi í vil.  Markasúpan byrjaði á 75. mínútu þegar að Greta Mjöll skoraði eftir hornspyrnu.  Á 81. og 82. mínútu var það markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir sem bætti við tveimur mörkum.  Það fyrra eftir einstaklingsframtak og það síðara eftir að markvörður Kínverja hafði varið skot Hólmfríðar.  Áhorfendur á vellinum, hvaðan úr heiminum sem þeir eru, trúa ekki sínum eigin augum.

Gerðar eru tvær breytingar á liðinu á 83. mínútu.  Hólmfríður Magnúsdóttir og Erna B. Sigurðardóttir komu út af en inn á komu þær Sif Atladóttir og Harpa Þorsteinsdóttir.

Á 87. mínútu kom Katrín Ómarsdóttir inn á fyrir Dóru Stefánsdóttur.

Á 92. mínútu náðu Kínverjar að klóra í bakkann með marki.  Það hafði þó lítil áhrif á fögnuð íslenska liðsins þegar dómarinn flautaði til leiksloka örstuttu síðar.  Kínverska liðið var lagt af velli, 4-1.  Frábær úrslit og ein þau bestu sem íslenskt landslið hefur borið úr býtum.

Ísland endaði því í níunda sæti þessa sterka móts og vonandi gefst liðinu tækifæri á að taka þátt í þessu sterka móti í framtíðinni.  Danmörk og Bandaríkin leika til úrslita á mótinu síðar í dag.