• þri. 13. mar. 2007
  • Landslið

Ísland mætir Kína á Algarve Cup

Katrín Jónsdóttir í leik gegn Tékkum á Laugardalsvelli 2006
Katrin_Jonsdottir_i_leik

Íslenska kvennalandsliðið mun mæta því kínverska í leik um níunda sætið á Algarve Cup 2007.  Þetta var ljóst eftir leiki gærkvöldsins en Ísland vann þar öruggan 5-1 sigur á Portúgal en Kína tapaði 0-2 fyrir Finnum.

Kína hefur verið eitt af stóru nöfnunum í kvennaboltanum í gegnum árin og fer Heimsmeistarakeppnin einmitt fram þar í september á þessu ári.  Kína vann silfurverðlaunin á HM í Bandaríkjunum árið 1999 eftir að tapa í frægri vítaspyrnukeppni í úrslitaleik fyrir heimastúlkum.  Kínverska liðið er sem stendur í níunda sæti styrkleikalista FIFA en nýr listi verður birtur föstudaginn 16. mars.

Kvennalið þessara þjóða hafa aldrei mæst áður og aðeins einu sinni hafa landslið þessara þjóða att kappi á knattspyrnuvellinum.  Það var árið 1994 þegar að U19 karlalandslið Íslands og Kína mættust á Ítalíumótinu.

Leikur Íslands og Kína hefst kl. 10:00 fyrir hádegi á morgun, miðvikudag og verður fylgst með gangi mála hér á síðunni.

Til úrslita á Algarve Cup leika Danmörk og Bandaríkin.  Um þriðja sætið leika Svíar og Frakkar en Frakkland er í riðli með Íslendingum í undankeppni EM 2009.  Finnar og Þjóðverjar etja kappi um fimmta sætið og Ítalía og Noregur um það sjöunda.  Loks leika Írland og Portúgal um sæti númer ellefu.